Stærsta mannamót á Íslandi

Tónlist og tangódans gáfu tóninn fyrir Menningarnótt.
Tónlist og tangódans gáfu tóninn fyrir Menningarnótt. mbl.is/Styrmir Kári

Fjölbreyttir viðburðir verða á dagskrá Menningarnætur, sem haldin verður í tuttugasta sinn næstkomandi laugardag 22. ágúst. Yfirskrift hátíðarinnar er „Gakktu í bæinn!“ en líkt og í fyrra munu stræt­is­vagn­ar ferja fólk til og frá bíla­stæðum í Borg­ar­túni og við Kirkju­sand.

„Þetta er ekki aðeins stærsti viðburður borgarinnar heldur einnig stærsta skipulagða mannamót á Íslandi,“ sagði Einar Bárðarson, forstöðumaður Höfuðborgarstofu, á blaðamannafundi um Menningarnótt í dag. Þar var meðal annars farið yfir dagskrá hátíðarinnar, en hún verður sett á laugardaginn klukkan 13 með opnun ljósmyndasýningar á Austurvelli. Verða þar birtar myndir frá fyrri hátíðum í tilefni stórafmælisins.

Einar Bárðarson, forstöðumaður Höfuðborgarstofu.
Einar Bárðarson, forstöðumaður Höfuðborgarstofu. mbl.is/Styrmir Kári

Fast­ir liðir eins og Reykja­vík­ur­m­araþon og stór­tón­leik­ar á Arn­ar­hóli og Mikla­túni verða í stóru hlut­verki líkt og áður en flug­elda­sýn­ing­in sem verður kl. 23 verður með óvenju­legu sniði í ár. Hún verður hluti af dansverki eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur, og ber nafnið Stjörnubrim og himininn kristallast. Í októ­ber munu Íslenski dans­flokk­ur­inn og Sigríður Soffía síðan end­ur­skapa flug­elda­sýn­ing­una á Stóra sviði Borg­ar­leik­húss­ins.

Meðal annarra viðburða má nefna Verð að heiman í dag - leikhús heimilislausra sem fer fram í samkomusal Hjálpræðishersins á milli klukkan 20 og 22, og ljósmyndasýningu blindra og sjónskertra sem verður á Skólavörðustíg. Þá verða börn sem fæddust þegar fyrsta Menningarnóttin var haldin yrðu heiðursgestir á setningarathöfninni að sögn Einars.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. mbl.is/Styrmir Kári

Menningarnótt var fyrst haldin 1996 og á þeim tíma hefur hún vaxið í að verða stærsta hátíð sem haldin er á Íslandi með yfir 100.000 gesti og hundruð viðburða. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði á fundinum að Menningarnótt væri tími samveru og tími gestrisni þar sem sköpunarkraftur fólksins fengi að njóta sín.

„Það er einstaklega ánægjulegt að slá saman þessum tveimur afmælum; 229 ára afmæli borgarinnar og 20 ára afmæli Menningarnætur,“ sagði hann á fundinum og bætti við að Menningarnótt væri einstakur viðburður. 

„Kjörorð Menningarnætur rammar þetta inn, að fólk eigi gjarnan að koma gangandi en sé líka velkomið að góðum og gegnum reykvískum og íslenskum sið: „Gakktu í bæinn!“,“ sagði hann.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Styrmir Kári

Mikil áhersla er lögð á aðgengis- og öryggismál og koma hátt í 40 ólíkir hagsmunaaðilar að skipulagningu og samráði þar sem farið er yfir nauðsynlegar lokanir, aðstoð meðan á hátíð stendur, löggæslu og aðkomu sjúkrabíla, samgöngur og margt fleira.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði lögregluna verða með öflugt eftirlit í miðborginni og að tekið yrði hart á unglingadrykkju nú sem fyrr. Með lögreglu í gönguhóp yrðu starfsmenn miðbæjarathvarfs, en unglingaathvarfið yrði einnig opið.

Sigríður benti á að almenn umferðarlög verði í gildi á þessum degi sem og öllum öðrum, og ágætt væri að hafa það í huga að búið væri að hækka sektir töluvert.

Dagskránni lýkur eftir flugeldasýninguna klukkan 23 og þá tekur í gildi sérstök leiðartafla Strætó. Sigríður sagðist hvetja foreldra til að njóta Menningarnætur með börnum sínum og unglingunum og fara saman heim. „Það er gott að hafa fjölskyldumöntru Menningarnætur í huga; að koma saman, gleðjast saman og fara heim saman,“ sagði hún.

Hægt er að fylgjast með undirbúningi hátíðarinnar á snapchat undir notendanafninu VodafoneIs.

Karen María Jónsdóttir og Guðmundur Birgir Halldórsson, verkefnastjórar.
Karen María Jónsdóttir og Guðmundur Birgir Halldórsson, verkefnastjórar. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert