Ævintýraópera fyrir börnin

Á næstu dögum verður ævintýraóperan Baldursbrá eftir Gunnstein Ólafsson sýnd í Hörpu. Verkið er óður til íslenskrar náttúru og var tilnefnt til íslensku tónlistarverðlaunanna í fyrra en tónlistin byggir m.a. á íslenskum tónlistararfi.

Böðvar Guðmundsson samdi texta við verkið sem byggir á tónlist og sögu Gunnsteins en sagan fjallar um óbilandi vináttu og kjark til að láta drauma sína rætast, jafnvel þótt það kosti mann lífið. Baldursbrá tekst það erfiða verkefni á hendur að fara úr skjólsælli lautu sinni upp á kaldranalegan fjallakamb þar sem ekkert vatn er að fá, aðeins til þess að mega njóta útsýnisins og sjá sólina setjast í allri sinni dýrð.

Spói fær Rebba vin sinn til þess að aðstoða blómið svo draumur þess megi rætast. Hætturnar leynast samt við hvert fótmál: vindurinn gnauðar og hættulegur hrútur situr um viðkvæman gróður. Þegar hrúturinn gerir árás virðast yrðlingarnir þeir einu sem geta komið Baldursbrá til bjargar.

Fyrsta sýning er á laugardag kl. 14.

mbl.is fylgdist með æfingu í vikunni en fjöldi fólks kemur að uppsetningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert