Að synda eða sökkva

Dr. Anh-Ðào Katrín Trâ`n.
Dr. Anh-Ðào Katrín Trâ`n. Rax / Ragnar Axelsson

„Markmiðið hlýtur að vera að fá börn og ungmenni af erlendum uppruna til að aðlagast íslensku þjóðfélagi og mennta sig en því miður er niðurstaða mín sú að skólarnir hafi ekki nægilega mikla möguleika til að uppfylla það. Annaðhvort passa krakkarnir inn í skólana eða ekki. Og geri þeir það ekki flosna þeir upp úr námi.“

Þetta segir Anh-Ðào Katrín Trân sem varði doktorsritgerð sína í menntavísindum við Háskóla Íslands í vikunni, en viðfangsefnið er staða nemenda af víetnömskum uppruna í íslenska framhaldsskólakerfinu. Anh-Ðào er fædd í Víetnam en hefur búið á Íslandi í 31 ár.

„Íslenska er mjög framandi tungumál og erfið að læra, sérstaklega fyrir þá sem kunna ekkert vestrænt tungumál. Þetta gerir mörgum krökkum af asískum uppruna mjög erfitt fyrir og skólarnir þurfa fyrir vikið að koma til móts við þá. Þessir krakkar trana sér ógjarnan fram sjálfir. Þegar þeir koma inn í tíma þar sem kennt er á íslensku snýst málið um að synda eða sökkva,“ heldur hún áfram.

Anh-Ðào brosir þegar spurt er hvernig sé að vera útlendingur á Íslandi. „Að langmestu leyti er það mjög fínt. Nærumhverfið slær skjaldborg um mann, það er að segja fjölskylda, vinir og vinnufélagar. Innan um þetta fólk finnur maður ekki fyrir því að vera af erlendu bergi brotin. Öðru máli gegnir þegar maður stígur út fyrir þægindarammann. Þá getur verið von á ýmsu.“

Beðin að útskýra þetta nánar svarar Anh-Ðào: „Það eru fordómar á Íslandi, við skulum hafa það alveg á hreinu. Ég er ekkert feimin við að tala um það. Án umræðu getum við ekki gert okkur vonir um að uppræta fordómana. Ég fæ gjarnan annað viðmót hjá fólki sem þekkir mig ekki.“

Nánar er rætt við Anh-Ðào í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert