11,3 milljarðar út af viðbótarsparnaði

Hægt er að nota niðurfellingarúrræði ríkisstjórnarinnar til að greiða niður …
Hægt er að nota niðurfellingarúrræði ríkisstjórnarinnar til að greiða niður húsnæðislán eða sparna til fasteignarkaupa. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Alls hefur um 11,3 milljörðum króna af viðbótarlífeyrissparnaði verið ráðstafað til húsnæðiskaupa eða til að greiða niður fasteignalán á grundvelli laga ríkisstjórnarinnar um niðurfellingu húsnæðislána. Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra er um milljarði króna ráðstafað með þessum hætti á mánuði.

Úrræðin sem ríkisstjórnin festi í lög í fyrra og nefndi „leiðréttinguna“ fólu meðal annars í sér að hægt var að sækja um skattfrjálsa greiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar inn á höfuðstól húsnæðislána eða til húsnæðissparnaðar. Mbl.is óskaði eftir upplýsingum um hversu háum fjárhæðum hefur verið ráðstafað á grundvelli úrræðanna.

Ríkisskattstjóri gat hins vegar ekki veitt sundurliðaðar upplýsingar um hversu mikið hefði verið lagt til hliðar til húsnæðissparnaðar og hversu mikið til að greiða af lánum.

Að meðaltali hefur 1,1-1,2 milljörðum verið ráðstafað af viðbótarlífeyrissparnaði á mánuði samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra.

Ennþá er hægt að sækja um úrræðin. Hægt er að ráðstafa iðgjöldum sem greidd eru til og með júní árið 2017 til fasteignakaupa til 30. júní 2019. Þeir sem sækja um núna geta ráðstafað iðgjöldum sínum til séreignarsparnaðar frá og með þeim tíma sem þeir sækja um. Þeir sem sóttu um fyrir 1. september í fyrra gátu hins vegar ráðstafað iðgjöldum frá 1. júlí 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert