Andlát: Sæmundur Óskarsson

Sæmundur Óskarsson.
Sæmundur Óskarsson.

Sæmundur Óskarsson, fyrrverandi prófessor við verkfræðideild Háskóla Íslands og rafmagnsverkfræðingur, lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 22. ágúst sl., 85 ára að aldri.

Hann fæddist í Vík í Mýrdal 25. janúar 1930, sonur hjónanna Óskars Sæmundssonar, bónda á Eystri-Garðsauka í Hvolhreppi, og Ásgerðar Guðmundsdóttur húsmóður.

Sæmundur fluttist fimm ára gamall frá Vík í Mýrdal ásamt fjölskyldu sinni til Reykjavíkur og síðar að Eystri-Garðsauka í Hvolhreppi árið 1942, þegar faðir hans tók þar við búi föður síns. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1950. Að því loknu stundaði hann nám við Háskóla Íslands og lauk þar fyrrihlutanámi í verkfræði 1953. Hann lauk prófi í rafeindaverkfræði frá Danmarks Tekniske Højskole árið 1956.

Sæmundur starfaði sem verkfræðingur hjá Póst- og símamálastofnun 1956-61. Hann stundaði ýmis störf frá 1961-62 en 1962-63 var hann verkfræðingur hjá sjóher Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvelli. Sæmundur varð síðan deildarverkfræðingur hjá Landsíma Íslands og yfirverkfræðingur árin 1966-72. Árið 1972 var Sæmundur skipaður prófessor við Háskóla Íslands árið 1972 og gegndi því starfi til 68 ára aldurs. Sæmundur vann við frumkvöðlastarf við skipulagningu á síðarihlutanáms í verkfræði við Háskóla Íslands á árunum 1971-1972. Einnig sá hann um að ljósleiðaratæknin varð innleidd til landsins, og kenndi hann m.a. ljósleiðaratæknina við verkfræðideild Háskóla Íslands.

Samhliða starfi sínu sem prófessor rak Sæmundur fyrirtæki sitt Rafeindaiðjuna og framleiddi þar aðallega hleðslutæki og spennustilla, m.a. til Landsímans, orkufyrirtækja og skipa.

Á langri starfsævi gegndi Sæmundur margvíslegum trúnaðarstörfum, m.a. fyrir Verkfræðifélag Íslands, sat í Orðanefnd RVFÍ (rafmagnsverkfræðingadeildar Verkfræðingafélags Íslands) allt frá 1990 til andláts og var hann að vinna að 14. bók hennar. Hann sat í stjórn skíðadeildar Ármanns, var formaður Skíðaráðs Reykjavíkur 1973-77 og formaður Skíðasambands Íslands 1978-80.

Eiginkona Sæmundar var Ágústa Arngrímsdóttir frá Árgilsstöðum í Hvolhreppi, en hún lést 1981. Þau eignuðust fimm börn, sem öll lifa föður sinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert