Leghálsskoðun bjargar lífi fjölda íslenskra kvenna ár hvert

Leghálsskoðun er fljótleg og sársaukalaus.
Leghálsskoðun er fljótleg og sársaukalaus. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðað við tíðni leghálskrabbameina má áætla að skoðanir Krabbameinsfélagsins hafi á undanförnum 50 árum komið í veg fyrir 600 ótímabær dauðsföll hjá konum,“ segir Kristján Oddsson, yfirlæknir leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. „Nú greinast árlega 16-17 konur með þessa tegund krabbameins og deyja að jafnaði tvær á ári, en ef ekki væri fyrir reglulega skoðun má reikna með að þessi sjúkdómur ylli dauða tveggja íslenskra kvenna í mánuði hverjum. Það sem meira er að meðalaldur þeirra sem greinast með sjúkdóminn er í kringum 45 ár, svo þetta er krabbamein sem birtist í tiltölulega ungum konum í blóma lífsins.“

Leghálskrabbamein er rakið til HPV-veirunnar sem Kristján segir að sé sá kynsjúkdómur sem er mest útbreiddur. Smitast um 80% einstaklinga af HPV einhverntíma á ævinni. Í mörgum einstaklingum veldur HPV litlum eða engum einkennum en um 90% sýktra losna við veiruna á tveimur árum. Eftir sitja 10% sem fá viðvarandi sýkingu.

„En það flækir síðan málin að þekkt eru um 150 afbrigði af HPV og þar af eru 14 sem eru krabbameinsvaldandi. Þá eru um 40 afbrigði sem geta sýkt slímhimnu og húð og valdið frumubreytingum,“ útskýrir Kristján. „Veldur HPV 100% af leghálskrabbameini, 50% af krabbameini í skapabörmum og leggögnum, 90% af krabbameini í endaþarmi bæði hjá körlum og konum, og veldur vaxandi hlutfalli af krabbameini í munni hjá báðum kynjum. Loks er 50% af krabbameini í getnaðarlim rakið til HVP.“

Stutt og einföld heimsókn

Í kringum 23. afmælisdaginn sendir Krabbameinsfélagið öllum konum í landinu boð um að koma í sína fyrstu leghálsskoðun og gert er ráð fyrir að skoðun sé gerð á þriggja ára fresti. Er skoðunargjaldið 4.200 kr. en Kristján bendir á að velflest stéttarfélög taki þátt í þeim kostnaði að miklu eða öllu leyti. Tekur skoðunin mjög stutta stund og á ekki að vera óþægileg.

„Eftir að hafa gefið sig fram við móttökuna er konunni vísað á skiptiklefa þar sem hún getur klætt sig í slopp. Innangengt er úr klefanum inn í skoðunarstofuna og þar má reikna með að taki um tvær mínútur að klára að taka sýnið.“

Tekin er stroka úr leghálsi og á ekki að vera sárt. „Áhald er sett upp í leggöngin til að auðvelda sýnatökuna og getur valdið smávægilegum þrýstingi,“ útskýrir Kristján. Konur þurfa ekki að undirbúa sig sérstaklega fyrir þessa skoðun en mega þó ekki vera á blæðingum.

Í meirihluta tilvika kemur ekkert óeðlilegt í ljós. Ef frumubreytingar greinast í sýninu þá fer það eftir eðli breytinganna hvað tekur við næst. Kristján segir að frumubreytingar þurfi ekki endilega að þýða að krabbamein muni myndast. „Við bjóðum konunni þá alla jafna að koma í skoðun hálfu ári síðar, og ef aftur greinast frumubreytingar mælum við með leghálsspeglun. Ef frumubreytingarnar eru alvarlegar og komnar á 2. eða 3. stig, þá er oftast framkvæmdur keiluskurður á svæðinu.“

Keiluskurður er aðgerð þar sem sýkta svæðið er fjarlægt. Tekur aðgerðin um 15-20 mínútur og er gerð undir svæfingu. Eru árlega framkvæmdir tæplega 300 keiluskurðir af þessu tagi hér á landi.

Vonir bundnar við bólusetningu

Fyrir nokkrum árum var byrjað að bjóða upp á HPV-bólusetningar fyrir stúlkur í 7. bekk grunnskóla. Í sumum löndum eru drengir einnig bólusettir. Kristján segir vonir bundnar við að þessar bólusetningar muni hjálpa til við að draga stórlega úr tíðni HPV-tengdra krabbameina. Bólusetningin þýðir þó ekki að regluleg skimun eftir frumubreytingum verði óþörf.

„Þessi bólusetning getur gefið 70% vörn ef bólusett er áður en kynlíf hefst. Nýasta bóluefnið er talið geta gefið 90% vörn gegn leghálskrabbameini og kynfæravörtum. Eftir situr að bóluefnið ver ekki gegn öllum afbrigðum HPV og veitir heldur enga vörn ef fólk hefur þegar smitast af veirunni.“

Heilbrigðisyfirvöld mæla með bólusetningu. Komin er góð reynsla á bóluefnið og rannsóknir sýni að mjög litlar likur eru á alvarlegum aukaverkunum. „Í bóluefninu eru ekki veiklaðar veirur heldur aðeins veiruhjúpurinn og dugar það til að vekja upp varnir ónæmiskerfisins.“

Eftir stendur að regluleg mæting í leghálsskoðun er áfram nauðsynleg. „Regluleg mæting getur komið í veg fyrir 93% leghálskrabbameina og þegar haft er í huga hversu áhrifaríka heilsuvernd er um að ræða er mikið áhyggjuefni að á Íslandi er mætingin nokkuð léleg, eða um 65%.“ 

Kristján Oddsson ásamt Sigríði Þorsteinsdóttur framkvæmdastjóra hjúkrunar. Vel er tekið …
Kristján Oddsson ásamt Sigríði Þorsteinsdóttur framkvæmdastjóra hjúkrunar. Vel er tekið á móti öllum sem koma í skoðun. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert