Hermann hættir sem framkvæmdastjóri

mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Hermann Ottósson hefur tilkynnt stjórn Rauða kross íslands að hann óski eftir að láta af störfum sem framkvæmdastjóri. Hann mun þó verða félaginu innan handar fyrst um sinn samkvæmt fréttatilkynningu en lætur af daglegum störfum í þessum mánuði. Þegar fram í sækir hyggst hann koma til liðs við RKÍ sem sjálfboðaliði með áherslu á neyðarvarnir og áfallahjálp.

„Það hefur fyrst og fremst verið gefandi og lærdómsríkt að starfa með öllu því öfluga og hæfileikaríka starfsfólki sem félagið hefur innan sinna raða sem og að eiga samskipti við áhugasama sjálfboðaliða sem félagið býr að. Því verkefni sem ég tók að mér fyrir Rauða krossinn er lokið og ég tel að nú sér rétti tíminn til að breyta til og takast á við ný verkefni,” er haft eftir honum.

Hermann kom til starfa sem framkvæmdastjóri RKÍ um mitt ár 2013. Fram kemur í tilkynningunni að stjórn Rauða krossins á Íslandi þakki Hermanni góð störf í þágu félagsins og framlag hans til þess undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert