Mynd Stewart á Bókmenntahátíð

Jon Stewart gerði kvikmyndina Rosewater sem verður sýnd á Bókmenntahátíð.
Jon Stewart gerði kvikmyndina Rosewater sem verður sýnd á Bókmenntahátíð.

Dagskrá Bókmenntahátíðar hefst næsta miðvikudag. Von er á 15 erlendum höfundum til landsins og 17 íslenskir höfundar taka jafnframt þátt.

Dagskráin fer fram í Norræna húsinu og Iðnó þar sem 2-3 höfundar koma saman hverju sinni ásamt spyrli, lesa úr verkum sínum og ræða verk sín og málefni sem þeim tengjast, segir í fréttatilkynningu. 

Á hátíðinni verða einnig kvikmynda-, ljósmynda- og leiksýningar. Að þessu sinni verður sýnd kvikmyndin Rosewater og flutt hljóðleikverkið The Hard Problem. Þar að auki verða tvær ljósmyndasýningar, annars vegar verða sýndar ljósmyndir bandaríska höfundarins Teju Cole og hins vegar verða sýndar myndir af Thor Vilhjálmssyni.

Þáttastjórnandi The Daily Show, Jon Stewart, gerði bíómyndina Rosewater sem byggir á fangelsisvist rithöfundarins og blaðamannsins Maziar Bahari í Íran. Myndin var frumsýnd í september 2014 á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto og fékk góðar viðtökur. Rosewater byggir á skáldsögu Maziar Bahari, Then They Came for Me, sem kom út árið 2011. Maziar Bahari verður gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík og myndin verður sýnd í Norræna húsinu laugardaginn 12. september kl. 15. Myndin er ótextuð og er tæpar 90 mínútur að lengd.

Útvarpsleikritið eða öllu heldur hljóðleikverkið The Hard Problem verður flutt í Iðnó föstudaginn 11. september kl. 21 frammi fyrir áhorfendum í myrkvuðu leikhúsi. Verkið byggir á nýjustu skáldsögu Kim Stanley Robinson, Aurora (2015) og mun höfundur lesa í myrkrinu frásögn sem segir frá geimskipi á ferð um himingeiminn. Verkið er unnið í samvinnu við Arthur C. Clarke Center for Human Imagination og er jafnframt eftir hina heimsfrægu gjörningalistakonu Marinu Abramović.

Í Eymundsson í Austurstræti verða sýnd ljósmyndaverk bandaríska rithöfundarins og ljósmyndarans Teju Cole. Á sýningunni Blind Sport sýnir Teju Cole ljósmyndir sem innblásnar eru af hugleiðingum um sjálfsímyndir og lífsviðhorf. Sýningunni fylgir áhrifarík ritgerð sem Teju Cole skrifaði um persónulega reynslu af tímabundnum sjónmissi.

Thor Vilhjálmsson var einn af stofnendum Bókmenntahátíðar í Reykjavík árið 1985. Í tilefni af 30 ára afmæli hátíðarinnar og þess að í ágúst voru liðin 90 ár frá fæðingu Thors verður sett upp sýning í Norræna húsinu með myndum af Thor frá ýmsum tímum. Fjölmargir ljósmyndarar eiga myndir á sýningunni og þar að auki verða sýnda stillur úr kvikmynd Erlends Sveinssonar um göngu Thors á Jakobsveginum árið 2005. Ljósmyndirnar ná að fanga útgeislun hans og einstæðan persónuleika. Sýningin er sett upp í samstarfi við Bókmenntaborgina og sýningarstjóri er Ragnheiður Vignisdóttir.

Hér má sjá dagskrá Bókmenntahátíðar 2015

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert