Varhugavert að reisa annað tjald

Tjaldið við Háskóla Íslands í morgun. Hátíðin Októberfest hefst á …
Tjaldið við Háskóla Íslands í morgun. Hátíðin Októberfest hefst á morgun. Mbl.is/Eggert

Formaður Flugbjörgunarsveitar Reykjavíkur segir varhugavert að reisa annað tjald í stað þess sem fauk í nótt við Háskóla Íslands. Von er á annarri lægð í kvöld og næstu daga. 

Litlu mátti muna að illa færi þegar tjaldið sem ætlað var fyrir Októberfest Stúdentaráðs HÍ (SHÍ) féll í rokinu en björgunarsveitarmenn sem voru inni í tjaldinu náðu að forða sér áður en tjaldið féll. Bíll sveitarinnar skemmdist þegar tjaldið féll á hann en ekki liggur fyrir hvert tjón sveitarinnar er.

Bláa og hvíta tjaldið sem hýst hefur árlega hátíð SHÍ brotnaði og rifnaði í átökunum í nótt og er ónýtt. Tryggvi Másson, hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi SHÍ, sagði í samtali við mbl.is í morgun að enn stæði til að halda hátíðina sem á að hefjast á morgun. „Nú er bara að finna lausn á þessu litla landi,“ sagði Tryggvi.

Frétt mbl.is: Tjaldinu verður ekki bjargað í nótt

Kröpp lægð gekk yfir landið í nótt og varaði Veðurstofa Íslands við  henni í gær. Þá hafði mbl.is fjallað um að von væri á fyrstu haustlægðinni um þetta leyti og því næst kæmu þær á færibandi. Björg­un­ar­sveit­ar­fólk fór í yfir 40 út­köll á höfuðborg­ar­svæðinu í nótt en alls voru 35-40 björg­un­ar­sveit­ar­menn af höfuðborg­ar­svæðinu að störf­um. Trampólín, þak­plöt­ur og vinnupall­ar fuku auk þess sem tré brotnuðu. 

Frétt mbl.is: Von á haustlægðum á færibandi

Ekki ljóst hver muni greiða tjónið

Að sögn Jóhannesar Inga Kolbeinssonar, formanns Flugbjörgunarsveitar Reykjavíkur, á eftir að meta tjónið á bílnum sem skemmdist í nótt en farið verður með hann á verkstæði eftir hádegi. Vitað er að framrúðan brotnaði, þakið bognaði og fjarskiptabúnaður í bílnum laskaðist. Þá er ekki vitað hvort grind bílsins skekktist.

Jóhannes Ingi segir sveitina líklega koma til með að sitja uppi með tjónið en þó liggi það ekki ljóst fyrir sem stendur. Tæki sveitarinnar eru tryggð en hún situr uppi með greiðslu sjálfsábyrgðar jafnvel þó að tjónið fáist bætt. Greiðslan gæti verið hátt í tvö hundruð þúsund og er það mikið fyrir sveit sem þarf að afla alla tekna sjálf.

 „Já, þetta eru ansi margir neyðarkallar, svona hundrað neyðarkallar,“ segir Jóhannes Ingi og vísar þar til tjóns sveitarinnar þurfi hún að greiða sjálfsábyrgðina. 

Ekki hægt að gera ráð fyrir að allt verði í lagi

„Það er þó fyrir öllu að mannskapurinn varð ekki fyrir skaða. Og það munaði mjóu vegna þess að þeir voru allir inni í tjaldinu rétt áður en þetta gerðist. Það komu hviður og þá hlupu þeir allir út. Sá sem er síðastur horfir upp og sér að þetta er allt að fara að leggjast saman. Hann rétt kemst út, þetta stóð í raun mjög tæpt,“ segir Jóhannes Ingi.  

Hann bendir á að tjaldið hafi vissulega verið kyrfilega fast en vindurinn hafi samt sem áður náð að leika það grátt.  „En svo má segja að þegar kemur svona veður, þá eiga kannski ekki að vera nein tjöld,“ segir Jóhannes Ingi.

Hann bendir á að í gær hafi verið varað við stormi, meðal annars á Suðvesturhorninu. „Það bjóst enginn við svona sterkri lægð og síðan er aftur spáð lægð í kvöld. Hún á að vera aðeins minni en hún gæti orðið allt önnur, það er ekki hægt að gera ráð fyrir að það verði bara í lagi.“

Frétt mbl.is: Von á hvelli í nótt

Á að vera með svona stór tjöld þegar von er á lægðagangi sem fylgir haustinu?

„Nei. Ég held að það sé ekki sniðugt. Ég veit ekki hvort menn ætli að reisa ný tjöld í stað þessa tjalds en það er varhugavert miðað við að það eru lægðir framundan. Menn ættu bara að leigja stóran sal í staðinn fyrir að reisa annað tjald. Það er mitt álit,“ segir Jóhannes Ingi.

Bíll Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík mikið skemmdur eftir að Októberfesttjald HÍ fauk á hann. Vekur upp ýmsar spurningar, eins og t.d: Hver heldur Októberfest í september?

Posted by Slysavarnafélagið Landsbjörg on Wednesday, September 9, 2015
Hér má sjá bílinn sem skemmdist í nótt.
Hér má sjá bílinn sem skemmdist í nótt. Ljósmynd/Landsbjörg/Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur
Frá vettvangi í morgun. Barinn sem búið var að smíða …
Frá vettvangi í morgun. Barinn sem búið var að smíða og koma fyrir inni í tjaldinu er ónýtur. mbl.is/Eggert
Bláa og hvíta tjaldið sem hýst hefur árlega hátíð SHÍ …
Bláa og hvíta tjaldið sem hýst hefur árlega hátíð SHÍ brotnaði og rifnaði í átökunum í nótt. Ernir Eyjólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert