Vilja hýsa heimilislausa í vetur

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að heimilislaust fólk yrði hýst í ónotuðu húsnæði Reykjavíkurborgar á Víðinesi í mögulegu samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, var vísað til velferðarnefndar á fundi borgarráðs í dag af fulltrúum meirihlutans.

Sjálfstæðismenn vildu að tillagan yrði afgreidd á fundinum og sátu því hjá við þá ákvörðun. Létu þeir bóka að tillagan hefði upphaflega verið lögð fram um miðjan júlí og þegar verið til skoðunar í borgarkerfinu í tæplega tvo mánuði. Minnt er á að vetur gangi brátt í garð og því rétt að láta verkin tala. Þess í stað kjósi meirihlutinn að taka málið til frekari skoðunar.

Bókun borgarfulltrúa sjálfstæðismanna:

„Vegna vaxandi umfangs vanda heimilislauss fólks og brýnnar þarfar þar sem vetur gengur brátt í garð, væri rétt að láta verkin tala og samþykkja fyrirliggjandi tillögu Sjálfstæðisflokksins um móttöku og hýsingu heimilislausra í ónotuðu húsnæði á Víðinesi. Þess í stað kýs borgarstjórnarmeirihlutinn að vísa henni til frekari skoðunar í borgarkerfinu þrátt fyrir að hún hafi verið þar til skoðunar um hríð. Minnt skal á að tillaga Sjálfstæðisflokksins var flutt í borgarráði um miðjan júlí og hefur hún því legið fyrir án afgreiðslu í tæpa tvo mánuði. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að nú þegar hafi gefist nægur tími til að skoða þá framkvæmd, sem tillagan felur í sér, og styðja ekki að henni verði frestað frekar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert