Ekkert vitað um ferðir mannsins

Siem Pilot
Siem Pilot Af vef Frontex

Norska björgunarskipið Siem Pilot mun ekki láta úr höfn á Sikiley í dag líkt og til stóð. Öllu björgunarstarfi áhafnar skipsins hefur verið aflýst og einbeitir áhöfn skipsins sér að því að leita skipverjans sem hvarf aðfararnótt mánudags.

Upplýsingafulltrúi norsku rannsóknarlögreglunnar, Kripos, Ida Dahl Nilssen staðfestir þetta í samtali við norska fjölmiðla í dag.

Skipverjinn sem er saknað er íslenskur, Benjamín Ólafsson, og er 23 ára gamall. Hann fór ásamt öðrum í áhöfninni í land í bænum Catania á sunnudagskvöldið þar sem þau borðuðu saman. Eftir það fór áhöfnin aftur um borð. Það var síðan um hálf fjögurleytið um nóttina, að því er talið er, sem Benjamín yfirgaf skipið einn sín liðs og fór í land. 

Vinnufélagar hans hafa tekið þátt í leitinni, hengt upp myndir og auglýsingar víða í bænum en enn hafa ekki borist vísbendingar um hvar hann er að finna. Fjölskylda Benjamíns kom til Sikileyjar í gærkvöldi, samkvæmt frétt Dagbladet.

Nilssen segir að tveir prestar sjómanna séu á staðnum og eins er von á sálfræðingi til þess að ræða við áhöfnina. 

Siem Pilot kom til hafnar í Catania á sunnudag en skipið hefur síðan í byrjun júní sinnt verkefnum tengdum flóttamönnum á Miðjarðarhafinu á vegum Frontex, landamæraeftirlitsstofnunar Evrópusambandsins.

Nilssen segir að áhöfnin hafi fengið leyfi til þess að fara í land á sunnudagskvöldið og það hafi margir komið seint aftur um borð þar á meðal Benjamín. En svo hafi hann yfirgefið skipið á nýjan leik og nokkrum tímum síðar hafi komið í ljós að hann hafði ekki skilað sér til baka. Ekki er vitað hvers vegna hann fór aftur í land. 

Dahl Nilssen segir að ítalska lögreglan hafi umsjón með leitinni og ekki hafi komið fram neinar vísbendingar. 

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert