Gagnrýna „kjarkleysi borgarstjóra“

Landsfundur Ungra vinstri grænna hefur sent frá sér ályktun þar sem lýst er „djúpstæðum vonbrigðum“ með þá ákvörðun Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur, að draga til baka tillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur að borgin sniðgangi ísraelskar vörur. Hreyfingin telji að stigið hafi verið stórt skref í mannréttindamálum með samþykkt tillögunnar.

„Þjóðarmorð Ísraelsríkis á Palestínumönnum verður ekki stöðvað með aðgerðaleysi. Til þess að það taki enda verður alþjóðasamfélagið að sýna samstöðu með palestínsku þjóðinni í verki. Um er að ræða friðsamlega aðgerð, öfugt við hernaðaraðgerðir þær sem henni er beint gegn. Telur hreyfingin að slíkar aðgerðir séu eina rétta svarið við hernaðarbrölti stórvelda heimsins. Með því að versla ekki við ísraelsk fyrirtæki þangað til Palestína verður frjáls skapar alþjóðasamfélagið þrýsting á yfirvöld þarlendis um að láta af framferði sínu. Samþykkt borgarstjórnar er ekki endanleg útfærsla og vel er hægt að gera við hana breytingatillögur eftir á,“ segir ennfremur í ályktuninni.

Þá segir að ungliðahreyfingin gagnrýni „kjarkleysi borgarstjóra“ í málinu. „Viðbrögðin við
samþykktinni voru fullkomlega viðbúin og mátti öllum vera ljóst að Ísraelsríki og
stuðningsmenn þess tækju henni ekki þegjandi og hljóðalaust. Ung vinstri græn
skora á borgarfulltrúa að standa með sjálfum sér og palestínsku þjóðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert