Keyrði beint inn í verslunina

Ljósmynd/Haukur Ingi Hauksson

Betur fór en á horfðist þegar litlum jeppa var ekið inn í verslunina Merkismenn í Ármúla í dag.

„Það kom hérna jeppi askvaðandi,“ segir Gunnar Trausti Guðbjörnsson, framkvæmdastjóri og eigandi fyrirtækisins Merkismenn. „Hann var að leggja í stæði hérna fyrir utan en náði að sveifla sér upp tröppurnar og inn um hurðina,“ segir hann.

Allt útlit er fyrir að ökumaður hafi farið pedalavillt og stigið á bensíngjöfina en ekki bremsuna með fyrrgreindum afleiðingum. Enginn slasaðist við atvikið en nokkrar skemmdir urðu á húsnæðinu.

Gunnar segir betur hafa farið en á horfðist því enginn hafi slasast þegar þetta gerðist. Atvikið varð um eittleytið í dag, en hann segir að á þeim tíma sé algengt að fólk sé í versluninni. Því sé mikil mildi að ekki fór verr.

Ljósmynd/Haukur Ingi Hauksson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert