Á „ljósbrettum“ við strendur Íslands

Á ferðabloggsíðunni Stuck in Iceland birtist nýlega myndband af mönnum á heldur óvenjulegum brimbrettum við strendur Íslands.

Í myndbandinu sjást brimbrettakempurnar Hodei Collazo, Imanol Yeregi og Natxo González sýna listir sínar á brimbrettum skreyttum allskonar ljósum. Þrátt fyrir mikinn kulda ákváðu þeir að ferðast til Íslands til að sjá fegurð landsins, sem kemur greinilega fram í myndbandinu.

Frétt mbl.is: Vefur þeirra sem elska Ísland

Í viðtali á Stuck in Iceland segjast þeir hafa sigrast á kuldanum, sem virtist að þeirra sögn ekki bíta á heimamenn, með því að kappklæða sig þann tíma sem þeir voru hér á ferli. Einum þeirra varð meira að segja svo kalt að hann tók upp á því að pissa á hendurnar til að halda á þeim hita.

Þeir segja öldurnar við Íslandsstrendur mjög góðar og að ef ekki væri fyrir kuldann væri landið örugglega fullt af brimbrettaköppum. Kvikmyndagerðarmaðurinn Igor Bellida Molina segist á Stuck in Iceland ætla að koma aftur til landsins fljótlega því landið sé það fallegasta sem hann hafi séð og bætir við að hann hafi ferðast mestalla ævi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert