Handteknir í tjónabíl í íbúagötu

mbl.is/Eggert

Lögreglan á Suðurnesjum handtók þrjá karlmenn sem voru í afar annarlegu ástandi í skemmdri bifreið í íbúagötu í Keflavík síðastliðið laugardagskvöld. Grunur leikur á ölvun við akstur og þá telur lögreglan ljóst, sé miðað við skemmdir á bifreiðinni, að hún hafi oltið. Óljóst er hvar það gerðist.

Lögreglan fót á vettvang um klukkan 22 og komu að bifreiðinni sem var lagt fyrir framan hús í götunni. Að sögn lögreglu barst tilkynning frá sjónarvotti sem sá bifreiðina á ferð í götunni.

Maðurinn sem lögreglan telur að hafi verið ökumaður bifreiðarinnar er grunaður um ölvun við akstur. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem maðurinn brýtur af sér með þessum hætti. 

Þá leikur jafnframt grunur á að mennirnir - allir eða hluti þeirra - hafi verið undir áhrifum fíkniefna. 

Þeir voru handteknir á staðnum og færðir á lögreglustöð. Þar var tekin af þeim skýrsla og blóðprufur. Mönnunum var í framhaldinu sleppt. 

Aðalvarðstjóri segir í samtali við mbl.is að bifreiðin hafi verið töluvert skemmd og líklegt þyki að hún hafi oltið. Hins vegar sé ekki vitað hvar eða hvenær það gerðist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert