Búa sig undir hlaup í Skaftá

Í vindi og þurrki er oft svartamyrkur vegna leirs sem …
Í vindi og þurrki er oft svartamyrkur vegna leirs sem fýkur. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Bændur á Búlandi, efsta bænum austan í Skaftártungu, búa sig nú undir hlaup úr Eystri-Skaftárkatli. Ganga þarf úr skugga um að engar kindur séu meðfram ánni og þá hafa líka verið sóttar hestakerrur í Skaftárdal en hætt er við að vegurinn þangað fari í sundur í hlaupinu.

Auður Guðbjörnsdóttir og Pétur Davíð Sigurðsson eru bændur á Búlandi og eru með 16 bása fjós og 500 kindur. Pétur Davíð er fæddur og uppalinn á bænum en þau Auður tóku við bænum um áramótin 2012 og 2013. „Þetta er í túnjaðrinum hjá manni en maður ræður ekkert við svona náttúruöfl,“ segir Auður í samtali við mbl.is.

Pétur Davíð og fleiri bændur í sveitinni huga þessa stundina að kindum á svæðinu. „Við erum að smala Skælinga sem liggja mjög nærri ánni svo það sé öruggt að það sé ekkert fé þar. „Það er það sem maður er hræddastur við, ef það leynist fé nálægt ánni,“ segir Auður.

Leirinn fýkur næstu árin

„Hlaupin brjóta alltaf á túnunum hjá okkur, þessum sem liggja næst ánni. Áin sjálf brýtur alltaf aðeins af túnunum í venjulegu rennsli en auðvitað gerir hún það meira í svona hlaupum. Það er helsti skaðinn sem við verðum fyrir,“ segir Auður.

„Mestu leiðindin er leirframburðurinn sem fylgir ánni í hlaupunum. Þegar hann þornar þá fer hann að fjúka upp og veldur þar af leiðandi fokástandi, það er viðvarandi árin þar á eftir. Í vindi og þurrki er hér svartamyrkur.“

Fjúkið veldur svifryksmengun sem fer í öndunarfærin á skepnum og mönnum. Áhrif leirfoksins á skepnurnar hafa ekki verið rannsökuð. 

Óalgengt er að vegurinn á milli Búlands og þjóðvegsins fari í sundur. „Skaftáin liggur samt mjög nálægt veginum hérna við Hvamm. Það er helst þar sem hann gæti grafist í sundur og þá missum við þá samgönguleið,“ segir hún. „Þetta er bara spennandi. Við erum jákvæð. Við lifum á náttúrunni sem bændur og við verðum bara að taka því sem hún gefur okkur í svona hamförum.“

Bændur bíða rólegir eftir hlaupinu.
Bændur bíða rólegir eftir hlaupinu. Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert