Fyrirheitin hrökkva ekki til

Kolaorkuver í Suður-Afríku. Losun manna á gróðurhúsalofttegundum þarf að minnka …
Kolaorkuver í Suður-Afríku. Losun manna á gróðurhúsalofttegundum þarf að minnka hratt og stöðvast í náinni framtíð til að forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytingar. AFP

Þau markmið sem ríki heims hafa sett sér um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fram að þessu þýða að hnattræn hlýnun stefnir í 2,7°C sem er vel yfir yfirlýstu markmiði þeirra sem samþykkt hefur verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Íslendingar hafa enn ekki tilkynnt um sitt markmið.

Samkvæmt nýrri greiningu Climate Action Tracker (CAT), sem er tól sem nokkrar rannsóknarstofnanir hafa útbúið til að reikna út áhrif loftslagsaðgerða á vænta hlýnun jarðar, stefnir í að hnattræn hlýnun muni nema 2,7°C miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu miðað við þær aðgerðir sem þegar hafa verið boðaðar. Það er 0,7°C yfir yfirlýstu markmiði þjóða heims um að nauðsynlegt sé að halda hlýnuninni innan við 2°C til þess að forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytinganna.

Óformlegur frestur sem þjóðir heims hafa til að skila inn svonefndum landsmarkmiðum sínum fyrir árin 2025 og 2030 fyrir loftlagsfund SÞ sem fer fram í París í desember rennur út í dag. Um 140 ríki sem standa fyrir um 80% af losun manna á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum hafa þegar skilað inn sínum markmiðum, þar á meðal Bandaríkin, Kína og Evrópusambandið.

Á annan tug milljarða tonna vantar upp á

Til þess að ná markmiðinu um að takmarka hlýnun við 2°C þyrfti losunin að vera 11-13 milljörðum tonna af koltvísýringsígildum minni árið 2025 en ríki heims hafa lýst yfir og 15-17 milljörðum tonna minni árið 2030. Um þessar mundir losa jarðarbúar um 48 milljarða tonna koltvísýringsígilda á ári. Miðað við þær aðgerðir sem hafa verið boðaðar verður losunin 52-54 milljarðar tonna árið 2025 og 54-55 milljarðar tonna árið 2030.

Bill Hare, einn þeirra sem starfa við CAT, segir við AFP-fréttastofuna að ólíklegt sé að framlög þeirra landa sem enn hafa ekki inn skilað inn markmiðum sínum muni verða til þess að 2°C markmiðið náist. Hlýnunin sem vænta má miðað við þær forsendur sem þjóðir heims skila nú er engu að síður 0,4°C lægri en síðast þegar CAT tók saman áhrif þeirra loftlagsaðgerða sem höfðu verið boðaðar þá.

Íslensk stjórnvöld hafa enn ekki tilkynnt hversu mikið þau muni draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum fyrir loftslagsfundinn í desember. Þau hafa aðeins greint frá því að þau ætli að taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópusambandslanda um 40% samdrátt losunar og skilað því inn sem landsmarkmiði sínu. Ekki hefur hins vegar verið tilgreint að hversu mikið Ísland muni leggja af mörkum til þess. Formaður samninganefndar Íslands í loftslagsmálum sagði við mbl.is í sumar að ósennilegt væri að framlag Íslands lægi fyrir áður en fundurinn í París fer fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert