„Alinn upp á skyri og lýsi“

Antero Vartia í hálfíslensku umhverfi á eyjunni „Íslandi“ á skyrhátíð …
Antero Vartia í hálfíslensku umhverfi á eyjunni „Íslandi“ á skyrhátíð sem haldin var í Helsinki. mbl.is/Helgi Bjarnason

„Mamma er farin að tala stöku sinnum við mig á finnsku. Hún talar ekki mjög góða finnsku svo ég vil frekar tala íslensku við hana. Hún talaði alltaf íslensku við mig þegar ég var barn og ég lærði íslenskuna áður en ég fór að tala finnsku þótt ég hafi aldrei lært hana í skóla,“ segir Antero Vartia, 35 ára gamall þingmaður á finnska þinginu. Hann á íslenska móður og finnskan föður og hefur íslenskan ríkisborgararétt ásamt finnskum en hefur búið í Helsinki allt sitt líf.

Móðir Anteros, Erna Einarsdóttir, var flugfreyja hjá Loftleiðum og vann síðar hjá Flugleiðum og Icelandair í Finnlandi. „Mamma fékk frímiða og við fórum oft til Íslands þegar ég var ungur. Þegar ég var orðinn fimmtán ára vildi ég heldur eyða fríunum hér. Eftir 2000, þegar ég fékk aftur áhuga á að fara til Íslands, var landið orðið svo dýrt að það var skynsamlegra að fara í ferðalag til New York en helgarferð til Íslands. Ég hef farið meira seinni árin og vona að ég geti gert meira af því á næstunni,“ segir Antero.

Hann á mikinn frændgarð á Íslandi og heldur sambandi þótt afi hans og amma á Íslandi séu fallin frá.

Áhyggjur af loftslagsbreytingum

Antero hafði ekki verið lengi í stjórnmálum en alltaf haft áhuga á samfélagsmálum þegar hann bauð sig fram til setu á Evrópuþinginu fyrir Græna flokkinn í Finnlandi snemma á þessu ári. Hann náði ekki kjöri þá en var kjörinn á finnska þingið í kosningum í apríl. Hann er í hópi 15 þingmanna Græna flokksins í stjórnarandstöðu en alls eru 200 fulltrúar á finnska þinginu.

Áhugi á umhverfismálum kallaði hann til þessara starfa. Aðaláhugamál hans er að vinna að aðgerðum til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og tilheyrandi breytingum á loftslagi. „Það skiptir engu máli hvernig Finnland verður eftir tuttugu ár ef þetta verður ekki lagað,“ segir hann.

Antero telur að Finnar viti almennt að hann er af íslenskum ættum. Segist oft nota reynslusögur frá Íslandi til að skýra mál sitt.

Samtalið fer fram á kynningu á íslensku skyri í Helsinki. Því er Antero spurður að því hvort hann borði skyr. Ekki stendur á svarinu: „Ég er alinn upp á íslensku skyri og lýsi.“

Sjónvarpsmaður og bareigandi

Antero Vartia er þekktur maður í Finnlandi og það hjálpaði honum í kosningunum í apríl. Hann er viðskiptafræðingur og viðskiptalögfræðingur og rekur nokkur fyrirtæki.

Hann hóf starfsferilinn raunar á því að selja minjagripi í tjaldi við höfnina í Helsinki. Nú rekur hann vinsæla vínstúku við höfnina í Suður-Helsinki. Þar eru biðraðir við innganginn flest kvöld. Velgengnin er slík að hann er að koma sér upp öðrum veitingastað og hyggst opna hann með vorinu.

Áður en Antero fór út í stjórnmálin var hann þó þekktastur fyrir að leika í sápuóperu í sjónvarpi og síðar fyrir að vera kynnir í sjónvarpsþætti þar sem fjölskyldum var hjálpað til að finna týnd skyldmenni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert