Telja Jóhönnu hafa staðið sig best

Jóhanna Sigurðardóttir var forsætisráðherra 2009-2013
Jóhanna Sigurðardóttir var forsætisráðherra 2009-2013 mbl.is/Árni Sæberg

Flestir telja Jóhönnu Sigurðardóttur hafa staðið sig best síðustu sex forsætisráðherra. Þetta er niðurstaða Gallup-könnunar sem unnin var fyrir nýjan þátt Gísla Marteins Baldurssonar, Vikan. Greint er frá þessu á vef RÚV.

Spurning var „Hver af eftirtöldum forsætisráðherrum telur þú að hafi staðið sig best í embætti?

68,7% aðspurðra svöruðu könnuninni en af þeim töldu 43,1% að Jóhanna hefði staðið sig best. Næst kom Davíð Oddsson með 27,7% og Steingrímur Hermannsson með 12,1%.

9,5% töldu núverandi forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, hafa staðið sig best, 5,3% Geir Haarde og 2,3% töldu Halldór Ásgrímsson hafa staðið sig best.

Sjálfstæðisflokkurinn með aukið fylgi

Sjálfstæðisflokkurinn eykur fylgi sitt um þrjú prósentustig milli mánaða, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Flokkurinn er þó meira en tíu prósentustigum undir Pírötum, sem mælast enn langstærstir íslenskra stjórnmálaflokka.

Gallup greinir örlitla hreyfingu á fylgi flokka frá síðustu könnun. Píratar eru með tæp 35,9%, 1,3 prósentustigum minna en síðast. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 24,4%, 2,8 prósentustigum meira en síðast. Samfylkingin mælist með 10,1% og Björt framtíð með 5,6%, og bæta báðar við sig um það bil einu prósentustigi. Framsóknarflokkurinn er með 10,1% og Vinstri græn með 10,6%, og missa um það bil prósentustig hvort.

Stuðningur við ríkisstjórnina eykst um tvö prósentustig milli mánaða. Liðlega 36% þeirra sem tóku afstöðu segjast styðja hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert