Auka stuðning við sjávarútvegsháskóla

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, lofaði auknum stuðningi við sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna sem hefur aðsetur á Íslandi í ræðu á ráðstefnu um málefni hafsins í Síle í gær. Þar sagði hann loftslagsbreytingar eina stærstu ógnina við höf jarðar.

Í fréttatilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram að ráðherrann hafi ávarpað ráðstefnuna „OurOcean“ í Valparísó í Síle en hún var haldin að frumkvæði Johns Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Markmiðið með ráðstefnunni, sem nú er haldin í annað sinn, sé að leita leiða til berjast gegn hættum sem lífríki sjávar stafar af ýmsum umhverfisþáttum, ólöglegum fiskveiðum, plastmengun og súrnun hafsins.  

Megininntak ávarps Sigurðar Inga var þær breytingar sem hafa orðið á breytingum á íslenskum sjávarútvegi undanfarna áratugi. Þá lofaði ráðherrann auknum stuðningi við sjávarútvegsháskólann.

Sigurður Ingi sagði að loftslagsbreytingar væru ein helsta ógnin við höf jarðar og allt lífríki þess væri í hættu vegna hækkandi hitastigs og súrnunar hafsins. Aðeins verði hægt að stemma stigu við vandamálinu með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland hafi í því skyni stefnt að því að taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsins um 40% samdrátt losunar fyrir árið 2030.

Ræða sjávarútvegsráðherra á ráðstefnunni „OurOcean“

Tilkynning ráðuneytisins 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert