Ísland bætir stöðu sína í frammistöðumati ESA

Utanríkisráðuneytið.
Utanríkisráðuneytið. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ísland hefur bætt innleiðingar gerða í EES-samningnum umtalsvert síðastliðið ár en það má sjá á lækkandi innleiðingarhalla. Í nýju frammistöðumati sem Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, birtir í dag kemur fram að innleiðingarhallinn var kominn niður í 2,1% í apríl sl. þegar nýja matið var unnið. Hallinn var 2,8% í nóvember í fyrra og 3,2% í frammistöðumatinu sem kynnt var í apríl 2014.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að unnið hafi verið á grundvelli Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar frá 2014 að því að bæta framkvæmd EES samningsins hér á landi. Frammistöðumat ESA nú tali sínu máli og það sé árangur þeirra aðgerða stjórnvalda sem lagðar voru til í Evrópustefnunni.

„Á meðal aðgerða má nefna að málefni EES-samningsins – innleiðingarmál þar með talin - eru nú reglulega rædd í ríkisstjórn. Upplýsingagjöf til ráðuneyta hefur verið efld og fræðslustarf aukið. Komið var á fót sérstökum stýrihópi undir stjórn forsætisráðuneytisins sem unnið hefur að því að því að skilgreina flöskuhálsa og bæta ferla við vinnslu EES mála í íslenskri stjórnsýslu,“ segir í tilkynningunni.

„Áfram er unnið að því að ná því markmiði stjórnvalda að innleiðingarhallinn fari niður fyrir 1%. ESA mun framkvæmda nýtt frammistöðumat í lok þessa mánaðar og er raunhæft að Ísland geti þá bætt stöðu sína enn frekar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert