Tæp milljón í bætur vegna gæsluvarðhalds

mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða manni tæpa milljón í miskabætur vegna þriggja vikna gæsluvarðhalds sem hann sætti vegna rannsóknar á umfangsmiklu fíkniefnasmygli. Dómstólinn hafnaði hins vegar kröfu mannsins um bætur fyrir fjártjón, en aðalkrafa mannsins nam 23 milljónum.

Samtals krafðist maðurinn að ríkið yrði dæmt til að greiða honum tæpar 23 milljónir króna í bætur. Hann mótmælti því að hefði verið undir rökstuddum grun um brot, en hann sagði að það hefði legið fyrir að hann væri ekki sekur um þá háttsemi sem gæsluvarðhald var byggt á. Hann hefði því setið saklaus í gæsluvarðhaldi í 21 dag. 

Hann sagði miska sinn felast í mannorðsmissi, þjáningum og óþægindum vegna rannsóknarinnar, frelsissviptingar og málaferla. Hann hefði sætt einangrun á gæsluvarðhaldstímanum, heimsóknarbanni, bréfaskoðun og fjölmiðlabanni. 

Héraðsdómur féllst á kröfu mannsins um miskabætur vegna handtöku og gæsluvarðhaldsvistar í 21 dag. Fram kemur, að maðurinn hafi verið í einangrun í gæsluvarðhaldinu. „Líta verður til þess að stefnandi hefur glímt við þunglyndi sem að hluta til skýrist af varðhaldsvistinni.  Eru miskabætur ákveðnar 950.000 krónur,“ segir í dómi héraðsdóms.

Sjónvarpsmenn á vettvangi þegar maðurinn var handtekinn

Maðurinn var handtekinn í júní 2009 og úrskurður í gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn á umfangsmiklum innflutningi fíkniefna. Hann sagði fyrir dómi að hópur frá Stöð 2 hefði verið á staðnum og tekið handtökuna upp. Sama dag hefði þess verið krafist fyrir héraðsdómi að honum yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi krafist bóta vegna rannsóknaraðgerða lögreglu gegn honum á tímabilinu frá desember 2008 til júní 2009.  Á þesssu tímabili hafi símar hans verið hleraðir, aflað var upplýsinga um símnotkun hans og fjárhagsmálefni og loks leitað á heimili hans og starfsstöðvum og hann látinn sæta gæsluvarðhaldi. 

Þá segir, að málið hafi tengst rannsókn íslensku lögreglunnar við erlend lögregluyfirvöld á sviði rannsókna vegna skipulagðrar glæpastarfsemi. Hefðu upplýsingar komið fram um að tiltekinn hópur brotamanna hefði keypt 2,5 tonn af kókaíni í Suður-Ameríku. Tengdist rannsókn þess máls rannsókn þeirri sem lögreglan hér á landi vann að. Þá segir, að nafngreindur meðlimur hópsins hafi komið nokkrum sinnum hingað til lands og m.a. heimsótt fanga í fangelsinu að Litla-Hrauni. Hefði þessi maður komið á ný til landsins 8. desember 2008 við annan mann. Ætluðu þeir að hitta ákveðna aðila hér á landi og tilgangur með heimsókninni tengdist fíkniefnum.  Hefði samtal þeirra og stefnanda við refsifanga sem þeir heimsóttu í fangelsinu að Litla-Hrauni verið hlerað. Komið hefði fram að þeir hygðust flytja inn vökva sem væri blandaður fíkniefnum.  Þá hefði sími þessa erlenda brotamanns oft verið notaður um nokkurra daga skeið til að hringja í síma stefnanda. 

Var talinn einn af aðilum málsins

Ríkið sagði að maðurinn hefði átt talsverð samskipti við hollenskan ríkisborgara sem er talinn tengjast hópi mann sem hafi staðið að innflutningi kókaíns í tonnatali til landsins. Þeir hefðu átt fund með öðrum mönnum í heimsóknarrými í fangelsinu að Litla-Hrauni, en sá fundur hefði verið hleraður. Hafi þeir haft uppi ráðagerðir um flutning á vökva sem væri blandaður fíkniefnum. Var maðurinn talinn einn af aðilum málsins. 

Þá sagði ríkið, að hann hefði verið í nánum samskiptum við þekkta íslenska og erlenda brotamenn sem hefðu ráðgert stórfelldan innflutning á ólöglegum fíkniefnum og peningaþvætti. Þá benti ríkið á að maðurinn hefði nokkrum sinnum neitað að svara spurningum. Þá hafi svör hans verið ónákvæm og þokukennd og borið með sér að hann hafi ekki viljað segja of mikið. 

Grunur lögreglu hvorki sterkur né rökstuddur

Héraðsdómur segir, að vísbendingar sem lögreglan fékk með hlerunum, auk stofnunar einkahlutfélags og móttöku á fimm milljónum króna, hafi ekki verið nægilega skýrar eða ákveðnar til að heimila að stefnandi yrði hnepptur í gæsluvarðhald. 

„Til þess var grunur lögreglu ekki nægilega sterkur og hugmyndir um brot sem framin hefðu verið eða væru í undirbúningi ekki nægilega skýr.  Grunur lögreglu eða hugmyndir um tengsl stefnanda við stórfelldan flutning fíkniefna frá Suður-Ameríku virtist hvorki sterkur né rökstuddur.  ar ekki heimilt að handtaka stefnanda og hneppa í gæsluvarðhald eins og gert var. Rannsóknin hafði heldur ekki rennt frekari stoðum undir þá aðgerð þegar gæsluvarðhaldið var framlengt,“ segir í dómi héraðsdóms.

Þá segir, að málið hafi verið fellt niður gagnvart manninum í maí 2010.

Héraðsdómur segir ósannað að lögregla hafi boðið sjónvarpsmönnum að vera viðstaddir er maðurinn var handtekinn, eða veitt þeim upplýsingar um fyrirhugaða handtöku á annan hátt.  Verður ábyrgð á fréttaflutningi fjölmiðla af málinu ekki felld á ríkissjóð.  

Fjártjón og vinnutekjutap ósannað

Maðurinn krafðist bóta fyrir fjártjóns. Héraðsdómur segir engin gögn liggja frammi um tekjuöflun mannsins yfirleitt.  Lögmaður hans sagði fyrir dómi að maðurinn hefði ekki skilað skattframtölum síðustu árin. Héraðsdómur sagði að vinnutekjutap mannsins væri ósannað og var kröfunni því hafnað. 

Þá krafðist hann bóta vegna launa sem hann taldi sig hafa farið á mis við vegna vanrækslu lögreglustjórans á að fella mál hans niður. Þessi vanræksla hefði orðið til þess að hann hefði glatað tækifæri til að stunda vinnu og afla sér tekna.

Héraðsdómur hafnaði einnig þessum kröfulið þar sem vinnutekjutap stefnanda er ósannað, bæði á meðan hann sætti varðhaldi og eftir það. „Það skiptir ekki máli eftir hvaða launatöxtum stefnandi reiknar tap sitt.  Tapið er ósannað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert