Grunaður um líkamsárás í Hafnarfirði

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Um klukkan 21 í gærkvöldi var maður handtekinn í Hafnarfirði grunaður um líkamsárás. Samkvæmt upplýsingum úr dagbók lögreglunnar var maðurinn vistaður i fangageymslu og er málið í rannsókn. Árásarþoli var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild til aðhlynningar en hann var með sár á höfði.

Lögregla hafði jafnframt afskipti af tveimur ökumönnum í gærkvöldi og í nótt sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum. Klukkan rúmlega níu í gærkvöldi var bifreið stöðvuð við Grenimel en ökumaður hennar er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum  áfengis og fíkniefna. Þar að auki er hann grunaður og vörslu fíkniefna og hafði ekki endurnýjað ökuréttindi sín.

Klukkan 4:20 var bifreið stöðvuð í Hafnarstræti en ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur. Samkvæmt upplýsingum úr dagbók lögreglunnar var maðurinn vistaður í fangageymslu að lokinni sýnatöku sökum ástands.

Klukkan 2:52 var síðan tilkynnt um innbrot í verslun við Skipholt. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að hurð hafi verið spennt upp, farið inn og verðmætum stolið. Málið er í rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert