Komast ekki nærri öðrum framlögum

Ráðstefnu og tónlistarhúsið Harpa við Reykjavíkurhöfn
Ráðstefnu og tónlistarhúsið Harpa við Reykjavíkurhöfn mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Brynhildur Pétursdóttur, þingkona Bjartrar framtíðar, gagnrýndi í þætti Sigurjóns M. Egilssonar, Sprengisandi, í morgun framlög til menningarmála á landsbyggðinni. Jafnvel þó að framlögin væru lögð saman kæmust þau til að mynda ekki nærri framlagi ríkisins til Hörpu, sem er 700 milljónir. 

Sagði hún mikla vöntun á innkomu hins opinbera á fjármögnun menningarmála víða, ekki síst á Austurlandi þaðan sem dýrt sé að komast til höfuðborgarsvæðisins. Margir hafi hreinlega ekki efni á því að sækja sér menningu til höfuðborgarinnar.

Raunar sagði Brynhildur kerfið í heild þarfnast endurskoðunar þar sem það væri „hipsum haps“ hvort og hvernig hið opinbera komi að því að styrkja verkefni. Sum komist á fjárlög, önnur sæki sér styrki úr ýmsum sjóðum eða fái fé frá sveitarfélögum á meðan önnur fái ekkert.

Tekur sem dæmi, ef við tökum bara framlögin sem fara í Hörpu, þá myndu öll framlög sem fara til menningarmála á landsbyggðinni ekki ná heildinni. 

Mikilvægt að geta byrjað á nýjum verkefnum

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokks, sagði eðlilegt að athuga að fenginni reynslu hvernig standa eigi að þessum málum. Núverandi kerfi hafi verið við lýði í nokkur ár og hugsanlega tímabært að athuga hvernig það hefur reynst. „Við viljum hafa þannig kerfi að hægt sé að byrja á nýjum verkefnum,“ sagði Unnur Brá.

Þá væri mikilvægt að meta það eftir að reynsla kemst á rekstur verkefna hversu mikila aðstoð þau þurfi og hvort þau geti staðið á eigin fótum.

Þó núverandi kerfi sé ófullkomið eins og gerist sagði Unnur Brá það þó mikla framför frá fyrri tíð þegar fjöldi manns kom á fund alþingismanna og biðlaði um fjármagn.

Brynhildur Pétursdóttur, þingkona Bjartrar framtíðar
Brynhildur Pétursdóttur, þingkona Bjartrar framtíðar
Unnur Brá Konráðsdóttir og Brynjar Níelsson.
Unnur Brá Konráðsdóttir og Brynjar Níelsson. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert