Rafmagn kom lögreglu á sporið

Frá rannsókn spænsku lögreglunnar í verksmiðjunni sem hefur verið lokað.
Frá rannsókn spænsku lögreglunnar í verksmiðjunni sem hefur verið lokað.

Íslendingur á sextugsaldri, sem var handtekinn í tengslum við stórt fíkniefnamál á Spáni, er sagður einn af höfuðpaurum málsins. Þá er hann sagður hafa leigt húsnæðið þar sem umfangsmikil kannabisframleiðsla fór fram í Molina de Segura.

Spænska lögreglan lagði hald á um 6.000 kannabisplöntur sem fundust í húsnæðinu í vikunni, sem er sagt eitt það háþróaðasta í Evrópu. Í fyrstu voru sjö Hollendingar og einn Íslendingur handteknir í tengslum við málið, en Hollendingarnir eru sagðir vera á aldrinum 27 til 43 ára gamlir. Íslendingurinn er sagður á meðal höfuðpaura málsins ásamt hollensku pari. Í framhaldinu voru þrír Íslendingar til viðbótar handteknir. 

Lögreglan komst á sporið eftir að kvartanir höfðu borist frá fyrirtækjum á svæðinu sem höfðu fundið fyrir rafmagnstruflunum. Rannsókn leiddi í ljós að erlendir einstaklingar höfðu leigt húsnæðið fyrir nokkrum mánuðum og sagt að þar ætti að fara fram framleiðsla á einangrunarefnum. Þá kom einnig í ljós, að verksmiðjan hefði sótt sér rafmagn ólöglega.

Í verksmiðjunni var að finna mikið af tæknibúnaði, s.s ljósum, kælikerfi og öðrum tækjum og tólum til ræktunar. En svo virðist sem að verksmiðjan hafi geti framleitt mikið magn á skömmum tíma. Talið er verðmæti verksmiðjunnar hafi verið um ein milljón evra, eða sem samsvarar um 142 milljónum króna.

Þegar lögreglan lét til skarar skríða voru átta handteknir, sem fyrr segir. Rannsóknin leiddi svo lögreglu á spor tveggja íslenskra ríkisborgara sem voru handteknir er þeir reyndu að fara frá Spáni á bifreið með búnað í eftirdragi sem tengist rannsókn málsins. Þriðji Íslendingurinn var síðan handtekinn á flugvelli í Alicante, en hann átti þar bókað flug til Íslands.

Fram kemur í spænskum fjölmiðlum, að efnin hafi verið flutt til Hollands þar sem þau fóru í dreifingu. Talið er að um 10 tonn af maríjúana hafi verið flutt landleiðina frá Molina de Segura til Hollands. Þá virðist hafa staðið til að útvíkka starfsemina og hefja framleiðslu í öðru húsnæði í Crevillente, sem er í Alicante-héraði.

Spænskir fjölmiðlar segja að höfuðpaurarnir, hollenskt par, hafi reynt að yfirgefa landið þegar það komst að því að lögreglan væri að fylgjast með þeim. Þau voru hins vegar á meðal þeirra átta sem voru handteknir í upphafi. Fjölmiðlar á Spáni segja að parið hafi lifað hátt og búið í glæsihýsi í Alicante.

Fjórir Íslendingar handteknir á Spáni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert