Vilja frekari gögn vegna lyktar

Samþykkt var á fundi bæjarstjórnar Akraness í dag að óska eftir ítarlegri skipulagsgögnum og upplýsingum frá HB Granda vegna fyrirætlana fyrirtækisins um búnað og aðferðir sem fyrirtækið hyggst beita til að sporna gegn lyktarmengun. Mikil umræða hefur átt sér stað í bænum um ýldulykt sem komið hafi frá vinnslu HB Granda í bænum.

Fram kemur á vefsíðu Akraness að fyrir liggi umsókn frá HB Granda um uppbyggingu fyrirtækisins í bænum með aukinni starfsemi í hausaþurrkun og eftirþurrkun. Heildarvinnslugeta að framkvæmdum lokum verði á bilinu 500 til 600 tonn á viku.

„Áður en tekinn verður afstaða til umsóknarinnar telur bæjarstjórn Akraness að upplýsingar í fyrirliggjandi gögnum þurfi að vera fyllri. Það á við um möguleg áhrif starfseminnar, búnað og aðferðir sem gert er ráð fyrir að nota við vinnsluna til að lágmarka grenndaráhrif, einkum lyktarmengun. Það á jafnframt við um viðbrögð við slíkri mengun í ljósi þess að íbúar í nágrenninu kvarta undan lyktarmengun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert