„Hann á ekki að vera þarna megin“

Hér má sjá tarfinn einan á ferð skammt frá Dettifossi.
Hér má sjá tarfinn einan á ferð skammt frá Dettifossi. Ljósmynd/Júlíus Freyr Theódórsson

„Hann var bara þarna á göngu, að róta eftir einhverju að éta,“ segir leiðsögumaðurinn Júlíus Freyr Theódórsson í samtali við mbl.is en hann sá hreindýratarf skammt frá Dettifossi í gær. Júlíus birti mynd af tarfinum á Facebook og í færslunni bendir Júlíus á hversu sérstakt það er að rekast á hreindýratarf vestan Jökulsár á Fjöllum. „Hann á ekki að vera þarna megin,“ útskýrir Júlíus.

Sagt er frá tarfinum á vef 641.is og er þar vitnað í Jóhann G. Gunnarsson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun sem sagði að líklega væri um sama dýr að ræða og sást í Þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum í síðustu viku. 

Jóhann taldi þetta vera ungan tarf af myndinni að dæma, sem hefði líklega villst frá hjörð sinni í haust. Á 641.is kemur fram að Umhverfisstofnun muni eiga fund með fulltrúum frá Matvælastofnun og yfirdýralækni eftir hádegið í dag verður rætt hvað gera eigi í stöðunni. Eigi tarfurinn ekki „að vera á flakki“ vestan Jökulsár á Fjöllum, enda er Jökulsá sauðfjárveiki-varnalína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert