Kvartaði vegna eineltis í kirkjunni

Séra Ragnheiður og séra Skírnir.
Séra Ragnheiður og séra Skírnir.

Sr. Skírnir Garðarson, prestur í Lágafellssókn, sá sig knúinn til að flytja skrifstofu sína heim til sín og starfa þar að hluta vegna ágreinings á vinnustaðnum. Hann og sr. Ragnheiður Jónsdóttir, sóknarprestur kirkjunnar, hafa verið send í leyfi til áramóta vegna óánægju innan sóknarinnar.

Skírnir segir í samtali við mbl.is að óánægjan eigi rætur sínar að rekja til persónuverndarmáls sem lauk formlega fyrir ári. Í því máli var hann kærður fyrir brot á persónuverndarlögum ásamt starfsmanni Mosfellsbæjar.

Frétt mbl.is: Prestar í leyfi vegna óánægju

Segist hann hafa verið sýknaður í málinu en sjálfur þurft að standa undir kostnaði vegna málsins. Þá hafi verið litið framhjá andmælarétti hans og þannig hafi framkvæmdastjóri kirkjunnar brotið gegn lögum um opinbera stjórnsýslu.

Þá hefur Vinnueftirlitið til skoðunar kvörtun Skírnis vegna meints eineltis Ragnheiðar og Hreiðars Arnar Zoega Stefánssonar, framkvæmdastjóra kirkjunnar, í sinn garð. Segist hann einnig ekki hafa fengið sanngjörn meðmæli frá kirkjunni þegar hann sótti um starf prests á Akranesi nýverið.

Aðspurður segist Skírnir gera ráð fyrir því að vera á launum á meðan leyfinu stendur, eða til 1. janúar 2016.

Formaður sóknarnefndar Lágafellskirkju vildi ekki tjá sig um málið í samtali við mbl.is. Ekki náðist í biskup, biskupsritara né skrifstofustjóra Biskupsstofu við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert