Félag múslima á Íslandi fordæmir árásirnar

Salmann Tamimi er formaður Félags múslima á Íslandi.
Salmann Tamimi er formaður Félags múslima á Íslandi. mbl.is/Golli

„Félag múslima á Íslandi líkt og aðrir múslimar úti um allan heim, fordæmir þessa hrikalegu, tilefnislausu og blóðugu árás á saklaust fólk í París föstudagskvöldið 13. nóvember,“ segir í yfirlýsingu félagsins. „Við sendum aðstandendum fórnarlambanna samúðarkveðjur og óskum þeim særðu fljóts bata. Þessi blóðuga árás gerði engan mun á milli trúarbragða, litarháttar eða þjóðernis fórnarlambanna.“

Svo segir í yfirlýsingunni:

„Þessi árás sýnir okkur að nauðsyn er að við vinnum öll að því að koma á friði í heiminum. Friður fæst með virðingu og ást og umhyggju við náungann. Svona árásir hafa því miður tíðkast á síðustu árum sem gerir heiminn okkar mjög óöruggan. Fólkið í Mið-Austurlöndum, Afríku og Asíu þjáist vegna styrjalda og hryðjuverka. Þetta hvetur okkur öll til að taka okkur saman og standa sem eitt að berjast fyrir friði og mannvirðingu. Mannslíf er dýrmætt í íslam, hvert einasta líf er jafnt dýrmætt. Með ást og virðingu og með því að standa saman sem ein þjóð getum við sigrast á þessari ógn. Það er ekki nóg að fordæma, heldur eru það verkin sem skipta mestu máli. Við verðum öll að vinna saman, hvert og eitt, í að eyða hatrinu í okkar heimi.

Gildi frönsku byltingarinnar var frelsi, jafnrétti og bræðralag. Við eigum að vinna að því að halda þessum gildum og sýna þetta í verki en ekki bara í orðum. Við megum ekki láta hatur, stríðsbrölt og hryðjuverk eyðileggja þessi gildi fyrir okkur og afkomendum okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert