Stríðsástand án átaka

Vegna þess hversu fámennt er á götum borgarinnar verður nærvera …
Vegna þess hversu fámennt er á götum borgarinnar verður nærvera hermanna þeim mun meira áberandi. AFP

„Við ráðum hvort við mætum til vinnu en ég held að fæstir hafi farið, eða enginn. Skólar eru lokaðir þannig að fólk sem er með börn kemst ekki til vinnu og samgöngur eru lamaðar að miklu leiti.“

Þetta segir Aðalheiður Jónsdóttir, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins í sendiráði Íslands í Brussel, þar sem hættuástandi hefur verið lýst yfir vegna hryðjuverkaógnar. Neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar hefur verið lokað frá því á laugardag og sömu sögu er að segja um verslanamiðstöðvar og aðra fjölfarna staði.

Aðalheiður segir andrúmsloftið einkennast af ónotatilfinningu, en segir fólk þó ekki beinlínis hrætt. Hún var stödd í miðbæ borgarinnar á föstudagskvöld og varð vör við það þegar viðbúnaður jókst skyndilega.

„Maður sá strax snemma á föstudagskvöldinu hvernig bærinn var að fyllast af hermönnum,“ segir Aðalheiður. „Frá Charlie Hebdo-árásunum í París hafa verið verðir við ákveðna staði en ekkert þannig að það truflaði mann. Núna eru bara hermenn með alvæpni, hríðskotabyssur og margir saman, sem ganga um og eru mjög sýnilegir. Þetta er eiginlega eins og að ganga um í stríðsástandi án stríðs. Því svo verður maður ennþá meira var við þetta því það eru svo fáir á ferli.“

Ekki ótti, en ónotatilfinning

Á helstu vinnustöðum Íslendinga í borginni hefur fólk verið hvatt til að vera heima, en ekki beinlínis bannað að mæta til vinnu. Þá segir Aðalheiður að í dag hafi hún fengið fregnir af því að öllum alþjóðlegum fundum, sem kollegar frá Íslandi áttu að sækja í Brussel, hafi verið frestað.

Aðalheiður býr rétt fyrir utan miðborgina og segir matvöruverslanir og aðra þjónustu sem fólk sækir dag frá degi opna. En eins og fyrr segir séu verslanamiðstöðvaðar lokaðar og fólki hafi verið ráðlagt að halda sig frá verslanagötum. „Ég held að hugmyndin sé að loka stöðum þar sem fjöldi fólks gæti safnast saman,“ segir hún.

En hvernig upplifir hún andrúmsloftið?

„Þetta er ónotatilfinning,“ svarar hún. „Þetta er svona blendingur; auðvitað er ónotanlegt að sjá þetta því maður er Íslendingur og maður er ekkert vanur þessu en um leið verður maður að hugsa að það er gott að þeir eru að passa okkur,“ segir hún um herliðið á götum borgarinnar.

„Þetta er alls ekki ótti en þetta er ónotanlegt einhvern veginn. Og bara leiðinlegt að sjá. Brussel er svo skemmtileg menningarborg og full af lífi og fullt af túristum, en miðbærinn er bara lamaður.“

Taka eitt skref í einu

Aðalheiður segir fréttaflutning í Belgíu áþekkan fréttaflutningi breskra miðla. „Þeir segja að það sé veruleg og aukin hætta á árásunum og það kemur fram í hverri einustu frétt. Og að fólk eigi að halda kyrru fyrir og forðast fjölmenna og fjölfarna staði.“

Hún segir að í þessu samhengi hafi verið talað um verslanamiðstöðvar, verslanagötur, lestarstöðvar og viðburði, en einnig flugvöllinn. „En ég fór á flugvöllinn í gær að fylgja dóttur minni og ég ákvað að taka leigubíl af því að ég treysti því ekki að komast með almenningssamgöngum. Og flugvöllurinn var bara í fínu lagi; það var mikið af vörðum, meira af vörðum en venjulega, en það gekk allt á tíma og vélin frá Íslandi kom t.d. og fór á réttum tíma,“ segir hún.

Aðalheiður fylgist vel með fréttum og síðast þegar hún fór „rúntinn“, rétt eftir hádegi í dag, var sagt frá því að fimm hefðu verið handteknir í sjö húsleitum. Heildarfjöldi handtekinna er þá kominn í 21. Hún segir mikið heyrast af sírenuvæli og telur ljóst að menn séu ekki bara að bíða átekta, heldur standi aðgerðir yfir.

„Ég held að þeir séu að vinna í þessu og ég held að ástæðan fyrir því að þeir vilja losna við almenning af götunum sé að þeir vilja fá andrými til að gera þetta. Þeir taka enga sénsa á að almenningur sé að flækjast fyrir,“ segir hún. „Þeir eru að vinna þarna í gamla bænum þar sem fannst einhver böggull fyrir helgi. Þeir eru að vinna þar og þar er alla jafna fullt af fólki og túristum.“

Á þessari stundu er óvíst um framhaldið en Aðalheiður segist telja að yfirvöld taki stöðuna á hverjum tíma og séu ekki að tilkynna um lokanir eða annað með miklum fyrirvara til að valda ekki ótta.

„Ég held að það séu bara allir meðvitaðir um að svona ástand er tekið skref fyrir skref. Eitt skref í einu. Og maður fylgist með.“

Aðalheiður Jónsdóttir.
Aðalheiður Jónsdóttir.
Fólk hefur verið beðið um að vera ekki að deila …
Fólk hefur verið beðið um að vera ekki að deila myndum af hermönnum á samskiptamiðlum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert