Fjárhagsstjórn í myndinni

Reykjanesbær glímir við mikinn skuldavanda.
Reykjanesbær glímir við mikinn skuldavanda. mbl.is/Sigurður Bogi

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir það munu skýrast á næstunni hvort fjárhagsleg endurskipulagning bæjarins gangi eftir. Annars þurfi að fara aðrar leiðir. „Ef það tekst ekki er sá möguleiki enn fyrir hendi að það verði skipuð fjárhagsstjórn yfir sveitarfélagið,“ segir hann.

Þrátt fyrir að íbúum sé að fjölga og útvarstekjur að aukast er tvísýnt með fjárhag Reykjanesbæjar. Frekari hagræðing og auknar tekjur þurfa að koma til ef takast á að greiða niður skuldir. Gangi þau áform ekki eftir er ekki hægt að útiloka að skipuð verði fjárhagsstjórn yfir bæjarfélagið.

Svona lýsir Kjartan Már fjárhagsstöðu bæjarins.

Tilefnið er óvissa um samningsbundnar greiðslur Reykjaneshafnar sem bærinn er í ábyrgð fyrir.

Hallarekstur umfram spár

Róðurinn í rekstri bæjarfélagsins hefur verið þungur. Fram kom í tilkynningu Reykjanesbæjar til Kauphallarinnar í byrjun október að neikvæð rekstrarniðurstaða A + B hluta samstæðu í ár muni hækka úr 410,9 milljónum í 716,2 milljóna neikvæða niðurstöðu.

Kjartan Már tekur fram að hins vegar sé nú margt jákvætt að gerast í bæjarfélaginu. Atvinnuleysi þar mælist nú aðeins 2,9%, samkvæmt áætlun Vinnumálastofnunar. Þá hafi íbúunum fjölgað um 1,3% í ár, eða um á þriðja hundrað. Alls bjuggu um 14.200 manns í bænum í ársbyrjun 2013 en nú eru íbúarnir 15.200. Góður gangur er á fasteignamarkaði og uppgangur á Keflavíkurflugvelli. Gæti vöxtur í ferðaþjónustu og uppbygging kísilvera leitt til enn hraðari íbúafjölgunar.

Kjartan Már segir fólk sækja í atvinnu á svæðinu. Betur farnar fasteignir séu flestar seldar og fyrirspurnir farnar að berast um lóðir.

Skortir vinnufúsar hendur

„Það er mikil eftirspurn eftir fólki. Það er langt síðan við fórum niður í náttúrulegt atvinnuleysi. Það vantar fólk á Suðurnesjum,“ segir Kjartan Már um stöðuna á vinnumarkaði. Vegna íbúafjölgunar þurfi bæjarfélagið að opna tvo leikskóla og nýjan grunnskóla fyrir árslok 2019.

„Öll þessi gróska helst í hendur við þær bjartsýnisspár og þær væntingar sem við höfum um að ná að greiða úr erfiðri fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar,“ segir Kjartan Már. „Ef það tekst ekki er sá möguleiki enn fyrir hendi að það verði skipuð fjárhagsstjórn yfir sveitarfélagið, skattar hækkaðir meira og þjónusta skert af hálfu þeirrar fjárhagsstjórnar. Ef svo fer veit maður ekki hvernig þetta þróast og hversu eftirsóknarvert það verður fyrir íbúa sem eru að velja sér framtíðarbúsetu að flytja á svæði sem þannig er ástatt um.“

Hækkun útsvars dugir ekki til

Kjartan Már segir útsvarstekjur ekki hafa hækkað í takt við bætt atvinnuástand. Það sé vísbending um svarta atvinnustarfsemi í bæjarfélaginu.

Bærinn hækkaði útsvarið úr 14,52% í 15,05% á þessu ári. Samdi bærinn við Fjársýslu ríkisins um að fá útsvarið strax, þótt ekki væri farið að innheimta það af íbúunum. „Það kemur með álagningunni á næsta ári. Þannig að við sjáum útsvarið hækka sem nemur þessari prósentuhækkun. Við sjáum það hins vegar ekki hækka í takt við minnkandi atvinnuleysi. Það er rannsóknarefni,“ segir Kjartan Már og bendir á að fasteignaskattar hafi hækkað samhliða hækkun útsvars.

Hann segir aðspurður að það dugi ekki til að lækka skuldir að útsvarstekjur bæjarins skuli hafa aukist um 20% frá 2013, miðað við fyrstu tíu mánuði ársins. Þær voru þannig 4.039 milljónir fyrstu tíu mánuði ársins 2013, 4.442 milljónir á sama tímabili 2014 og 4.821 milljón á þessu tímabili í ár. Áfram þurfi að hagræða í rekstri bæjarfélagsins.

Þrír möguleikar í stöðunni

Fram kom í tilkynningu Reykjaneshafnar til Kauphallarinnar 2. október að „vegna dráttar á samningsbundnum greiðslum til Reykjaneshafnar“ hefði „höfnin óskað eftir fjármögnun frá Reykjanesbæ til að geta staðið við greiðslur skuldbindinga“ sem voru á gjalddaga 15. október. Spurður um stöðu málsins segir Kjartan Már að Reykjaneshöfn hafi fengið frest hjá kröfuhöfum.

„Reykjaneshöfn samdi við kröfuhafa, þ.e.a.s. þá sem áttu að fá þessar greiðslur, um frest til 30. nóvember. Þannig að það reyndi ekki á ábyrgð Reykjanesbæjar í málinu. Það er þrennt sem getur gerst í málinu. Vonandi borgar höfnin. Ef hún getur það ekki gæti hún þurft að sækja um lengri frest. Þriðji möguleikinn er að höfnin fái ekki frest og það reyni á ábyrgð bæjarins.“

Spurður hvernig bæjarfélagið sé í stakk búið til að ganga í þessa ábyrgð og mæta gjalddaganum segir Kjartan Már að staðan sé óbreytt frá því í október. Bæjarfélagið hafi ekki svigrúm til að greiða skuldirnar. Það hafi enn ekki fengist niðurstaða í viðræður um niðurfellingu skulda. Þannig séu um 18 mánuðir síðan Reykjanesbær hóf viðræður við kröfuhafa með það að markmiði að semja um niðurfærslu skulda. Skiptast þær annars vegar í skuldir A-hluta bæjarsjóðs og hins vegar skuldir B-hluta bæjarsjóðs. Skipta kröfuhafarnir tugum.

Skulda yfir 40 milljarða

Skuldir Reykjanesbæjar voru um 41 milljarður í lok síðasta árs, eða u.þ.b. 2,75 milljónir á hvern íbúa.

Kjartan Már segir skuldirnar ekki hafa lækkað á þessu ári. Fram hafi komið í umræðum þegar fjárhagsáætlun ársins 2016 var lögð fyrir bæjarstjórn í byrjun nóvember, að bæjarfélagið myndi greiða um 1.400 milljónir í nettó vaxtakostnað á næsta ári. „Það er lífsnauðsynlegt hjá okkur eins og hjá ríkinu að lækka skuldir til þess að þurfa ekki að borga svona mikið í vexti,“ segir Kjartan Már en 1.400 milljónir samsvara um 94 þúsundum á hvern íbúa.

Til samanburðar var áætlað í fjögurra ára fjárhagsáætlun í desember í fyrra að heildartekjur sveitarfélagsins yrðu 15,64 milljarðar 2014 og skuldirnar 41,11 milljarðar. Var því áætlað að skuldir yrðu yfir 260% af tekjum. Önnur umræða um fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fer fram 15. desember. Kjartan Már segir að skera þurfi niður útgjöld og auka tekjur ef greiða á niður skuldir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert