Þáttaröð fyrir sjónvarp eftir nýjustu bók Stefáns Mána

Stefán Máni rithöfundur, til vinstri, og Baldvin Z sem skrifar …
Stefán Máni rithöfundur, til vinstri, og Baldvin Z sem skrifar handrit upp úr Nautinu og leikstýrir sjónvarpsþáttaröðinni. mbl.is

Gerð verður framhaldsþáttaröð fyrir sjónvarp upp úr Nautinu, bók rithöfundarins Stefáns Mána sem kom út á dögunum. Pegasus hefur keypt kvikmyndaréttinn, verðlaunaleikstjórinn Baldvin Z mun skrifa handrit í félagi við aðra og hann leikstýrir verkinu.

„Blekið er varla þornað á samningnum!" sagði Stefán Máni við mbl.is í dag. Þetta er mjög spennandi og fyrir mér er í raun draumur að rætast,“ sagði hann. Þegar rithöfundurinn sá Vonarstræti Baldvins Z í kvikmyndahúsi vorið 2014 hugsaði Stefán strax með sér að „Baldvin væri rétti maðurinn til að gera eitthvað við Nautið.“

Stefán Máni sendi bæði Baldvini og Snorra Þórissyni hjá Pegasus handritið, sem þá var í vinnslu. „Snorri hringdi svo í mig ári seinna og var mjög spenntur. Ég sagði strax að ef Baldvin vildi leikstýra gætum við samið!“

Ótrúlegt skemmtilegt efni

Baldvin Z líst vel á verkefnið. Fyrst hafi verið rætt um að gera bíómynd upp úr bókinni „en eitthvað kveikti í mér að gera frekar sjónvarpsseríu. Það fannst mér ótrúlega spennandi kostur því sagan býður upp á töluvert öðru vísi þáttaröð en gengur og gerist. Þetta er einhvers konar drama með spennu- og smá hryllingsívafi,“ sagði leikstjórinn í dag. „Ég sá strax að þetta er ótrúlega skemmtilegt efni til að vinna með; bæði er sagan mjög myndræn og uppbyggingin sjúklega spennandi; ég hrífst af flakki í tíma og rólegri uppbyggingunni."

Ekki liggur fyrir hverjir koma að því að skrifa handrit með leikstjóranum. „Nokkrir eru að velta þessu fyrir sér. Við myndum smá hóp sem skrifar."

Baldvin vill ekki spá því hvenær þáttaröðin gæti komið fyrir almenningssjónir. „Fjármögnun, þróun og vinnsla tekur oft langan tíma. Kannski seint á næsta ári, kannski seinna,“ sagði leikstjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert