Dæmdur fyrir hættulega líkamsárás

mbl.is/Sverrir

Hæstiréttur Íslands hefur dæmt karlmann fyrir líkamsárás eftir að hafa annars vegar slegið annan mann hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut sár og hnúð á hökubeinið og hins vegar sparkað ofarlega í líkama hans sem olli því að hann snerist á ökkla í falli með þeim afleiðingum meðal annars að ökkli hans fór úr lið og tvíbrotnaði.

Er manninum gert að sæta fangelsi í tíu mánuði fyrir brot sitt, en Hæstiréttur frestar fullnustu sjö mánaða refsingarinnar haldi hann almennt skilorð. Þá er honum einnig gert að greiða brotaþola 585.000 krónur í miska- og skaðabætur með vöxtum og allan sakarkostnað málsins.

„Ákærða [er] gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa aðfaranótt 17. nóvember 2013, fyrir utan Sambíóin við Strandgötu á Akureyri, slegið brotaþola í andlitið og strax í kjölfarið sparkað í andlit hans þannig að hann féll á gangstéttina með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund um stund, hægri ökkli hans fór úr lið og tvíbrotnaði bæði hliðlægt og miðlægt, auk þess sem hann hlaut áverka á liðbandi milli dálks og sperrileggs og sár og hnúð á hökubeini,“ segir í dómi Hæstaréttar.

„Árás ákærða var í senn fólskuleg og tilefnislaus og hafði varanlegar afleiðingar í för með sér fyrir brotaþola. Ákærði á sér engar málsbætur. Samkvæmt þessu er refsing hans ákveðin fangelsi í tíu mánuði.“

Dómur Hæstaréttar í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert