Eggjabændur í Giljaskóla

Anton Orri Hjaltalín, nemandi í Giljaskóla, hefur mjög gaman af …
Anton Orri Hjaltalín, nemandi í Giljaskóla, hefur mjög gaman af hænunum. mbl.is/Skapti

Morgunverkin eru óhefðbundin hjá einhverjum nemendum Giljaskóla á Akureyri á hverjum einasta degi. Í skólanum eru nefnilega 13 hænur sem börnin sjá um; þessa vikuna eru það 4. bekkingar. Nokkrir þeirra hófu gærdaginn á því að kíkja í hænsnakofann og komu til baka með átta egg.

Hænurnar komu í Giljaskóla í haust en voru áður á dvalarheimilinu Hlíð, þar sem gamla fólkið hugsaði um þær. Þangað fara hænurnar aftur í vor, þegar nemendur Giljaskóla halda í sumarfrí.

Þegar bekkjarfélagarnir Þórunn Helga Stefánsdóttir, Soffía Sunna Engilbertsdóttir, Gunnþór Andri Björnsson og Sigurður Kári Ingason gengu út í innigarðinn, sem er undir berum himni í skólahúsinu miðju, í bítið í gær voru allar hænurnar á vappi úti í blíðunni nema ein. Hún lá á fjórum eggjum.

Ekki er alltaf mjög þrifalegt í kringum hænur eins og margir vita, en það er ekki vandamál í Giljaskóla vegna þess hve krakkarnir eru áhugasamir um að hugsa vel um þær. Þrjár stelpur úr 9. bekk, Margrét Tómasdóttir, Guðbjörg Heiða Stefánsdóttir og Guðrún Margrét Steingrímsdóttir, taka sig til vikulega og þrífa vel í kringum hænurnar, úti og inni.

Alda Björk Sigurðardóttir heimilisfræðikennari er alsæl með búskapinn enda eru eggin öll nýtt í tímum hjá henni. Venjulega fær hún 8 til 12 egg á dag. Í gær voru krakkar úr 7. bekk að baka pítsasnúða þegar blaðamann bar að garði.

Börnin hafa bersýnilega mjög gaman af hænsnabúskapnum og að geta notað egg úr eigin hænum í tímum. Segja þau að rauðan í þessum eggjum sé mun dekkri og fallegri en venjulega. Alda Björk segir ástæðu þess einfalda: hænurnar fái svo gott að éta. Þær fá auðvitað afgangana úr skólaeldhúsinu.

Krakkar úr 4. bekk sem sóttu egg í gærmorgun. Frá …
Krakkar úr 4. bekk sem sóttu egg í gærmorgun. Frá vinstri: Þórunn Helga Stefánsdóttir, Soffía Sunna Engilbertsdóttir, Gunnþór Andri Björnsson og Sigurður Kári Ingason. mbl.is/Skapti
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert