Þyrfti að fjölga um 515 stöðugildi

Hlutfall faglærðs starfsfólks í leikskólum borgarinnar er nú 34% en …
Hlutfall faglærðs starfsfólks í leikskólum borgarinnar er nú 34% en myndi lækka ef börnum yrði fjölgað. Styrmir Kári

Ef gert er ráð fyrir að öllum börnum sem eru orðin 12 mánaða hinn 1. september 2015 yrði boðið leikskólapláss þyrfti að fjölga stöðugildum í leikskólum Reykjavíkurborgar um allt að 515 og stöðugildum leikskólastjóra um tólf ef byggðir yrðu jafn margir nýir ungbarnaleikskólar. 

Kostnaðarauki borgarinnar við að taka inn börn í leikskóla við eins árs aldur er á bilinu 2,3 til tæpar sex milljarðar króna. Ræðst það af því hvort innritað verður í leik- og grunnskóla einu sinni eða tvisvar á ári.

Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps sem skoðað hefur hvernig brúa megi bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Skýrslan var kynnt í skóla- og frístundaráði í dag.

Í skýrslunni eru dregnar upp átta mögulegar sviðsmyndir ef börn yrðu tekin fyrr inn í leikskóla en nú er gert og eru þær kostnaðargreindar, m.t.t. fjölda barna, faglærðra starfsmanna og húsnæðisþarfa. Sviðsmyndirnar miðast annars vegar við innritun barna í leikskóla frá 12 mánaða aldri og hins vegar frá 18 mánaða aldri.

Fram kemur að ef gert er ráð fyrir að öllum börnum sem eru orðin 12 mánaða hinn 1. september 2015 yrði boðið leikskólapláss þyrfti að fjölga stöðugildum í leikskólum um allt að 515 og stöðugildum leikskólastjóra um 12 ef byggðir yrðu jafn margir nýir ungbarnaleikskólar. Jafnframt segir að erfitt gæti reynst að fá fagfólk í þessi störf miðað við fjölda útskrifaðra leikskólakennara og framboð á vinnumarkaði um þessar mundir.

Hlutfall faglærðs starfsfólks í leikskólum borgarinnar er nú 34% en myndi lækka ef börnum yrði fjölgað. Stofnfjárfesting vegna aukinnar húsnæðisþarfar gæti numið allt að 9,4 milljörðum króna.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur í samráði við innanríkisráðherra skipað starfshóp sem á að gera tillögu að áætlun um hvernig sveitarfélögin skuli standa að því að bjóða leikskólaúrræði strax og fæðingarorlofi lýkur. Miðað er við að árið 2016 hafi fæðingarorlof verið lengt í 12 mánuði og þá verði sveitarfélög um landið allt reiðubúin að veita þjónustuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert