Aðventudagskrá í höfuðborginni

Ys og þys var á jólamarkaðnum við Elliðavatn í dag.
Ys og þys var á jólamarkaðnum við Elliðavatn í dag. Eggert Jóhannesson

Aðventuviðburðir verða víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Þar á meðal má nefna tendrun jólatrjáa Reykjavíkur og Kópavogs með tilheyrandi viðhöfn og jólamarkað við Elliðavatn þar sem boðið verður upp á einstök jólatré.

Ljósin tendruð á Austurvelli

Hefðbundin dagskrá verður á Austurvelli á morgun þar sem kveikt verður á Oslóartrénu. Sú dagskrá hefst kl. 15:30 og lýkur kl. 17. Kynnir verður Gerður G. Bjarklind og sérlegar jólastjörnur, Stefán Hilmarsson og Ragnheiður Gröndal, munu syngja inn jólin í hjörtu viðstaddra.

Khamshajiny Gunaratnam, varaborgarstjóri Oslóar, mun afhenda tréð formlega áður en hinn sjö ára norsk-íslenski Birki Elías Stefánsson mun svo loks tendra ljósin. Tíundi óróinn í jólasveinaseríu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra verður til sölu - að þessu sinni er Giljagaur í miðinu - en þeir óróar hafa einnig prýtt Oslóartrén í gegnum árin

Fram kemur í tilkynningu Reykjavíkurborgar að sterkur grunur sé uppi um að jólasveinarnir Skyrgámur, Kertasníkir og og Bjúgnakrækir muni gera sig gestkomna á Austurvelli á morgun.

Opið verður í bílastæðahúsinu við Ráðhúsið til þess að auðvelda fólki að leggja leið sína á hátíðahöldin.

Aðventuhátíð í Kópavogi

Aðventuhátíð Kópavogs hófst í dag klukkan 13 og heldur áfram fram á sunnudag fyrir framana menningarhúsin í Hamraborg. Jólatré bæjarins verður tendrað klukkan 16 í dag með tilheyrandi jólaball þar sem sungið verður og leikið, að viðstöddum jólasveinum og jólakettinum sjálfum. Sendiherra Svíþjóðar mun tendra tréð ásamt Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra en tréð er gjöf frá vinabæ Kópavogs, Norrköping.

Þá verður jólamarkaður opinn við menningarhúsin og markaðurinn Hönnun og handverk einnig opinn í Gerðasafni. Handverksmarkaður verður jafnframt opinn í félagsmiðstöð aldraðra í Gljábakka þar sem árlegur laufabrauðsdagur verður haldinn í dag.

Opið hús verður hjá listamönnum í Hamraborg og í Aukbrekku í dag og tekið á móti gestum og gangandi og á morgun verður boðið upp á jólaorigami í Bókasafni Kópavogs og listasmiðju í Gerðasafni. Þá verður jólaleikritið Augasteinn sýnt í Salnum klukkan fimm á morgun.

Jólamarkaður við Elliðavatn í Heiðmörk

Jólamarkaðurinn við Elliðavatn var settur í dag en þar verður auk jólatrjáa hægt að festa kaup á íslensku handverki og hönnun, m.a. úr við úr Heiðmörk. Kaffistofa verður á Elliðavatnsbænum þar sem boðið verður upp á tónlist og upplestur nokkurra rithöfunda.

Jólamarkaðurinn verður opinn allar helgar fram að jólum.

Í ár verður boðið upp á þá nýjung að bjóða föl „einstök“ jólatré, sem jafnan hafa ekki verið til sölu áður. Þau eru handvalin af sérfræðingum Skógræktarinnar vegna einstakrar fegurðar sinnar, ef ekki vegna mjög reglulegs vaxtarlags síns.

'Hjartahreinum' viðskiptavinum bjóðast sérvalin og einstök tré í jólamarkaðnum auk …
'Hjartahreinum' viðskiptavinum bjóðast sérvalin og einstök tré í jólamarkaðnum auk hefðbundnari trjáa.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert