Betra er kakó en fastur bíll

Ekki komust allir ferðar sinnar hjálparlaust í dag.
Ekki komust allir ferðar sinnar hjálparlaust í dag. mbl.is/Eva Björk

Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu hafa fengið hátt í þrjátíu beiðnir um aðstoð í dag, flestar vegna fastra bíla. Björgunarhópar hafa svo verið á ferðinni um höfuðborgarsvæðið frá því í morgun og aðstoðað fólk sem þær hafa ekið fram á og er vandræðum.

Verkefnin eru því orðin nokkuð mörg í dag þrátt fyrir að veðrið hafi ekki valdið þeim usla sem búist var við. Á þessari stundu berast fáar aðstoðabeiðnir en björgunarsveitir verða á ferðinni, a.m.k. til k. 16, þegar ástandið verður metið með lögreglu.

Í Vestmannaeyjum sinnti björgunarsveitin nokkrum fokútköllum, bundu m.a. niður grindverk, settu flaggstöng í skjól og festu klæðningu sem var að fjúka af húsi. Hún hefur nú lokið störfum í bili þar sem engin verkefni liggja fyrir.

Uppfært kl. 15.20

„Töluvert hefur verið um útköll í dag en full þörf hefur verið á þeim viðbúnaði lögreglu og björgunarsveita sem viðhafður var. Lögreglan er sérstaklega þakklát fyrir skynsemi borgarbúa um að halda sig heimavið og vera sem minnst á ferðinni, en einmitt vegna þessa hefur náðst að ryðja stofnbrautir og halda umferðinni gangandi fyrir það mesta,“ segir á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

„Sumum hefur þótt viðbúnaður fullmikill, en reynslan sýnir okkur að full ástæða var til þessa, enda skárra að sitja inni með kakó en í föstum bíl í vegkannti. Núna er verið að draga úr viðbúnaði enda veður að mestu leyti gengið niður. Okkar fólk verður áfram með vakt á ástandinu og kemur til aðstoðar ef þarf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert