Vonskuveður í dag

Fólk ætti að huga að veðri og færð áður en …
Fólk ætti að huga að veðri og færð áður en langt er af stað í ferðalög mbl.is/Malín Brand

Það verður snjókoma og skafrenningur norðaustanlands í dag og því slæmt ferðaveður. Búist er við vonskuveðri austantil á landinu fram eftir degi og mjög snörpum vindhviðum víða á Austurlandi og Austfjörðum. 

Að sögn varðstjóra í lögreglunni á Akureyri er afar meinlaust veður þar núna og hefur verið í nótt. Talsverð ofankoma en kyrrt veður. Greiðfært er innanbæjar á Akureyri og ekki hafa borist fregnir af ökumönnum í vandræðum í nágrenninu.

Færðin seint í gærkvöldi samkvæmt Vegagerðinni:

Snjóþekja og snjókoma er á flestum leiðum í kringum Reykjavík en einnig á Hellisheiði, í Þrengslum og á Reykjanesbraut. Snjóþekja og snjókoma er á stofnbrautum á Höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi . Þá er ófært um Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði og að mestu í kringum Þingvallavatn. Á Suðurlandi er svo áframhaldandi snjókoma og snjóþekja og jafnvel einhver þæfingur.

Á Vesturlandi er þæfingsfærð og snjókoma á Bröttubrekku, víða í Borgarfirði, á Mýrum og Holtavörðuheiði. Þungfært er í uppsveitum en snjóþekja eða hálka á annarstaðar.

Á Vestfjörðum er snjóþekja og snjókoma á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Þæfingsfærð og snjókoma er á Klettsháls og víða á sunnanverðum Vestfjörðum en annars er snjóþekja og él eða skafrenningur á öðrum leiðum. Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru ófærar einnig er ófært norður í Árneshrepp.

Á Norðurlandi  er hálka eða snjóþekja og skafrenningur á flestum leiðum. Þæfingsfærð er um Mývatnsöræfi og ófært er um Hófaskarð.

Þæfingsfærð og stórhríð er svo á Oddskarði en einnig er þæfingur í Fagradal en þar er snjókoma. Hálka eða snjóþekja og skafrenningur er annars á Austurlandi ásamt éljum nokkuð víða. Þungfært og óveður er á Vatnskarði eystra en ófært er um Öxi og Breiðdalsheiði.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Gengur í vestan 15-25 m/s á Norðaustur- og Austurlandi, annars mun hægari vindur. Él og vægt frost, en snjókoma og skafrenningur norðaustan til. Lægir talsvert eystra í kvöld. Sunnan gola eða kaldi og víða él á morgun, en bjartviðri norðaustanlands. Frost 0 til 10 stig, kaldast í innsveitum á Norðausturlandi.

Á fimmtudag:

Sunnan 5-10 m/s og él, en léttskýjað norðaustan til á landinu. Frost 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum norðaustanlands.

Á föstudag:
Gengur í hvassa norðaustanátt með snjókomu. Frost 0 til 8 stig. Slydda eða rigning við suður- og austurströndina síðdegis og hlánar þar.

Á laugardag:
Hvöss norðanátt og víða snjókoma, en þurrt að mestu sunnanlands. Frost 0 til 7 stig.

Á sunnudag:
Norðvestanátt og él fyrir norðan, en þurrt og bjart veður syðra. Frost 1 til 10 stig.

Á mánudag og þriðjudag:
Austan- og síðar norðaustanátt, él á víð og dreif og kalt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert