Deilur innan KÍ enda hjá saksóknara

Kennarahúsið við Laufásveg í Reykjavík þar sem Kennarasamband Íslands er …
Kennarahúsið við Laufásveg í Reykjavík þar sem Kennarasamband Íslands er til húsa. mbl.is/Sverrir

Kæra stjórnar endurmenntunarsjóðs framhaldsskólakennara og stjórnenda á hendur stjórnar Kennarasambands Íslands til sérstaks saksóknara virðist nýjasti liðurinn í áralöngum innanhúsátökum innan sambandsins sem snúast um fjármuni sjóðsins. Formaður KÍ er fullviss um að lögbrot hafi ekki verið framin.

Vísindasjóði Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum er ætlað að styrkja félagsmenn hans til framhalds- og endurmenntunar. Í bréfi sem stjórn sjóðsins hefur sent félagsmönnum sínum kemur fram að hún hafi kært stjórn Kennarasambands Íslands vegna meðferðar á fjármunum sjóðsins. Kæran hafi meðal annars verið lögð fram eftir að í ljós kom að fjármunir sjóðsins hafi verið notaðir á veitingahúsi, í áfengiskaup og gjafir.

Stjórn vísindasjóðsins hefur meðal annars barist fyrir því að fá bókhaldsgögn sjóðsins afhent frá Kennarasambandinu en hún segist ekki ekki hafa fengið þau að fullu. Sumt í þeim gögnum sem stjórnin hefur þarfnist skýringa eins og áðurnefndar greiðslur.

„Okkur finnst alveg grátlegt að þetta hafi þurft að fara svona langt. Á meðan við höfum ekki fengið gögn sem skýra ýmislegt í bókhaldinu getum við afskaplega lítið sagt til um hvað er hvað,“ segir Erla Elín Hansdóttir, formaður vísindasjóðsins.

Deilt um framlög og ráðstafanir á fjármunum

Eftir því sem mbl.is kemst næst hafa deilur staðið um vísindasjóðinn lengi. Kennarasamband Íslands varð til við sameiningu Hins íslenska kennarafélags (HÍK) og Kennarasambands Íslands hins eldra árið 1999. HÍK var aðallega skipað framhaldsskólakennurum en einhverjir grunnskólakennarar voru þó innan raða þess. Vísindasjóðurinn tilheyrði því félagi og fengu grunnskólakennararnir í HÍK áfram að hljóta styrki úr honum eftir sameiningu en þeir voru betri en þeir sem endurmenntunarsjóður grunnskólakennara bauð upp á.

Þegar ný stjórn tók við vísindasjóðnum árið 2008 kom í ljós að framlög með þessum grunnskólakennurum höfðu ekki skilað sér til vísindasjóðsins þrátt fyrir að þeir þæðu styrki úr honum heldur runnu þau til endurmenntunarsjóðs grunnskólakennara. Í framhaldinu kom einnig upp ósætti á milli stjórnar sjóðsins og KÍ um þjónustugjald hans til sambandsins en enginn samningur var gerður um þau við stofnun KÍ.

Þessar deilur leiddu meðal annars til þess að vísindasjóðurinn fór úr húsnæði KÍ árið 2011 og stjórn hans tók alfarið við rekstri hans og bókhaldinu frá þeim tíma. Stjórn sjóðsins hefur viljað fá bókhaldsgögn, þar á meðal um framlög með félagsmönnum til sjóðsins frá því fyrir þann tíma. Hún telur sig hafa lögfræðiálit fyrir því að hún eigi heimtingu á þeim gögnum. Kæran til sérstaks saksóknara varðar greiðslur sem koma fram í gögnum frá því fyrir 2011.

Samkvæmt heimildum mbl.is voru umræddar greiðslur í tengslum við starfslok starfsmanns á skrifstofu KÍ sem hafði meðal annars unnið fyrir vísindasjóðinn um árabil. Ákveðið hafi verið að vísindasjóðurinn tæki þátt í kostnaði við kveðjuhóf starfsmannsins á móti öðrum sjóðum innan KÍ.

Deilurnar á milli stjórnar vísindasjóðsins og stjórnar KÍ hafa einnig leitt til þess að hvorki stjórn sambandsins né Félag framhaldsskólakennara hefur aðgang að fundargerðum stjórnar sjóðsins. Stjórn KÍ var þannig ekki kunnugt um kæruna til sérstaks saksóknara fyrr en nýlega en hún var lögð fram í maí.

Engar vísbendingar um hegningarlagabrot

Guðríður Arnardóttir, formaður Kennarasambands Íslands, segir kæruna einn kafla í langri sögu og engin ástæða sé til þess að ætla að einhver hafi haft rangt við. Hún viti ekki betur en að öll bókhaldsgögn sem stjórn vísindasjóðsins eigi rétt á hafi skilað sér þó að það hafi tekið sinn tíma.

„Ég er fullvissuð um það af öllum gögnum sem ég hef aðgang að að það eru engar vísbendingar um að einhver hafi haft rangt við eða að það sé grunur um að þarna hafi átt sér stað brot á hegningarlögum. Mér finnst þetta ömurlegt mál sem við ættum leysa innanhúss sem eitt stéttarfélag og allra síst að reka það í fjölmiðlum,“ segir formaðurinn.

Samkvæmt upplýsingum sérstaks saksóknara er kæran til meðferðar hjá embættinu en hún sé hins vegar tiltölulega skammt á veg komin.

Uppfært kl. 20:10

Vakin er athygli á yfirlýsingu stjórnar KÍ vegna málsins. Hana má lesa hér.

Þar segir m.a.: „Það má vera að skil milli sjóða Kennarasambandsins hefðu mátt vera skýrari en allar gjaldfærslur á Vísindasjóð FF og FS voru gerðar án athugasemda þáverandi sjóðsstjórnar.

Ávirðingum um að starfsmenn KÍ greiði á óeðilegan hátt fyrir gjafir, áfengi og veitingar er vísað á bug. Löng hefð er fyrir því að halda kveðjuhóf fyrir starfsmenn sem hætta eftir áralöng störf fyrir KÍ. Þar eru þeir kvaddir og þeim þakkað fyrir vel unnin störf. Ennfremur eru endrum og sinnum haldnar móttökur í Kennarahúsi fyrir gesti (svo sem kjörna fulltrúa í stjórnum og ráðum) og starfsmenn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert