„Skelfilegt að horfa upp á þetta“

Ögmundur Jónasson,þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs.
Ögmundur Jónasson,þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs. mbl.is/Árni

„Það er skelfilegt að þurfa að horfa upp á þetta og ég er mjög ánægður að sjá að þetta er komið inn í hringiðu umræðunnar," segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri­ hreyf­ing­ar­inn­ar - græns fram­boðs.

Wiki­leaks hef­ur birt ný skjöl um viðræður vegna TISA-samn­ings­ins. Alþjóðlegu sam­tök­in PSI, sem hafa greint gögn­in, telja  að samn­ing­ur­inn verði  til þess að erfiðara verði fyr­ir stjórn­völd að fylgja eft­ir því sam­komu­lagi sem kann að nást á lofts­lags­ráðstefn­unni í Par­ís, eins og Mbl.is greindi frá fyrr í dag. 

„Ég var búinn að óska eftir utandagskrárumræðu um stöðu TISA-samninganna en nú hefur það enn eina ferðina gerst að þau ríki sem eiga aðild að þessum leynilegu samningum  verða uppvís að leynibruggi, að þessu sinni um orkumál,“ segir Ögmundur, sem skrifaði pistil um málið á heimasíðu sinni.

„Ég tek undir með Rósu Pavanelli, formanni Alþjóðasambands starfsfólks í almannaþjónustu (PSI), sem segir að það sé óþolandi að á meðan lýðræðislega kjörnir fulltrúar sitja á ráðstefnu í París að ræða um sameiginleg markmið, þá skuli fulltrúar þeirra sitja á leynifundi suður í Genf að véla um með hvaða hætti er hægt að setja ríkjunum skorður,“ segir hann.

„Þetta er ósiðlegt og ólýðræðislegt. Ég tek undir með henni líka að það er óboðlegt að það þurfi Wikileaks til að leka í okkur upplýsingum sem eiga að vera opinberar. Þetta eru skuldbindandi samningar ríkjanna. Þetta eru 23 ríki sem eiga aðild að þessum TISA-samningum og ég hef margoft kallað eftir því að við drögum okkur út úr þeim hópi," bætir Ögmundur við. 

„Við áttum aðild að GATS-viðræðunum sem miklu fleiri ríki áttu aðild að. Fátæku ríkin voru sérstaklga orðin andvíg þessum samningum á þeim forsendum að þau settu þeim að ýmsu leyti stólinn fyrir dyrnar. Þá drógu ríkari þjóðir heimsins út úr því og settust að leynilegu samningaborði á grundvelli þessara TISA-viðræðna. Þannig að þetta er ríkra manna klúbbur sem hefur stundum starfað leynilega. Hann hefur stundum lofað bót og betrun en það verkast ekki betur en svo en þetta nýlega dæmi sannar," segir þingmaðurinn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert