Hættustigi lýst yfir á Suðurlandi

Frá Skógarhlíð í kvöld.
Frá Skógarhlíð í kvöld. mbl.is/Júlíus

Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að lýsa yfir hættustigi á Suðurlandi vegna óveðurs. Er það gert í samráði við lögreglustjóra á svæðinu, en í hættustigi er viðbúnaður neyðar- og öryggisþjónustu á viðkomandi svæði eflt ásamt því að gripið er til fyrirbyggjandi aðgerða, s.s. lokunar svæða.

„Veðrið er mjög slæmt núna í kringum Vestmannaeyjar - þar er veðrið skollið á af fullum þunga,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, stjórnandi hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is, en samhæfingarstöðin í Skógarhlíð í Reykjavík hefur verið virkjuð. Þar innandyra sitja nú meðal annars fulltrúar frá ríkislögreglustjóra, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, Vegagerðinni, Landsneti, Mílu og Póst- og fjarskiptastofnun.

Vegna óveðurs er búið að loka þjóðveginum frá Hvolsvelli austur á Reyðarfjörð. Er þetta um 600 km löng leið. Þá voru almannavarnir einnig að loka Siglufjarðarvegi fyrir skömmu.  

Meðalvindhraði í Vestmannaeyjum er nú kominn yfir 30 m/s og bætir nú óðum í vind á Suðurlandi. Rögnvaldur segir ljóst að spár Veðurstofu Íslands séu að ganga eftir.

„Björgunarsveitir manna nú að hluta til margar lokanir auk þess sem margar sveitir eru nú tilbúnar í verkefni,“ segir Rögnvaldur, en björgunarsveitir hafa til þessa ekki verið kallaðar út vegna foks. Neyðarlínu hefur þó borist nokkur símtöl vegna hluta sem teknir eru að fjúka.

„Er þá um að ræða minniháttar muni, s.s. trampólín. Til þessa hafa ekki borist neinar tilkynningar um alvöru tjón,“ segir Rögnvaldur.

Á höfuðborgarsvæðinu er vindur farinn að aukast og á Rögnvaldur von á mjög slæmu veðri þar um klukkan 20. „Veðrið mun svo versna fram að miðnætti en þá fer það að skána aðeins aftur,“ segir hann, en reikna má með að ástandið verði einna verst í efri byggðum borgarinnar og á opnum svæðum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert