Noregur besta land í heimi

Norski fáninn.
Norski fáninn. Ljósmynd/Johannes Jansson-norden.org

Noregur skipar efsta sæti listans yfir bestu löndin til þess að búa í og er þetta tólfta árið í röð sem Noregur trónir á toppnum. Ísland er í 16. sæti listans en árið 2005 var Ísland í öðru sæti.

Um er að ræða svonefnda farsældarvísitölu, Human Development Index, HDI, sem Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (United Nations Development Programme, UNDP) gefur út.

HDI er vítt skilgreindur mælikvarði á lífsgæði þar sem landsframleiðsla á mann vegur þriðjung, ævilíkur við fæðingu þriðjung og menntunarstig þriðjung. Á þennan mælikvarða eru Norðmenn fremstir. Þær þjóðir sem eru í fremstu röð samkvæmt farsældarvísitölunni eru jafnframt meðal þeirra þjóða sem fá hæstar einkunnir samkvæmt sérstakri jafnréttisvísitölu.

Jens Wandel, sem stýrir gerð skýrslunnar, segir í samtali við norska ríkisútvarpið að ástæðuna fyrir góðu gengi Noregs megi rekja til stöðugs hagvaxtar og jafnréttis kynjanna.

Ástralía er í öðru sæti, Sviss í því þriðja, Danmörk fjórða og Holland í fimmta sæti. Svíþjóð er í 14. sæti og Finnland í 24. sæti.

Listinn í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert