„Svona áburður er óþolandi“

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Sigurður Bogi

„Hér í gærkvöldi féllu ummæli sem ekki er hægt að sitja undir,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, við upphaf þingfundar á Alþingi í dag undir liðnum fundarstjórn forseta. Vísaði hann til þess að í atkvæðaskýringu á þingfundi í gær hafi Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagt að ekki væri hægt að láta bjóða sér það að menn væru flissandi í þingsalnum undir áhrifum.

Þorsteinn sagðist vilja fá að vita hvaða menn Lilja hafi verið að tala um og undir hvaða áhrifum þeir hafi verið. Ef það yrði ekki upplýst sætu allir þingmenn undir grun um að átt hefði verið við þá. „Ég kæri mig ekki um það vegna þess að allt bull sem hér fer fram, gott og slæmt, það fer inn í fundargerðir Alþingis og ég kæri mig ekki um það að barnabörnin mín komi hérna einhvern tímann og lesi fundargerðir þessa fundar og hugsi með sér: Ja, afi gamli var fullur í þessum sal.“

Þingmaðurinn sagði að drægi Lilja ekki ummælin til baka bæðist afsökunar á þeim ætlaði hann að taka málið upp í forsætisnefnd þingsins þar sem hann ætti sæti „vegna þess að svona áburður er óþolandi.“ Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, tók til máls eftir ræðu Þorsteins og sagðist líta málið alvarlegum augum. Hann hafi gert tilraun til þess að ræða við Lilju Rafney en það hafi ekki verið hægt að koma því við. Hann myndi áfram ræða málið og skoða það til hlítar.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert