Við tekur íslenskur veruleiki

Önnur albanska fjölskyldan sem fékk íslenskan ríkisborgararétt.
Önnur albanska fjölskyldan sem fékk íslenskan ríkisborgararétt. Skjáskot/Facebook

„Þetta gengur þokkalega en ekki nægilega vel,“ segir Hermann Ragnarsson, sem stendur fyrir söfnun um þessar mundir fyrir albönsku fjölskyldurnar sem fengu ríkisborgararétt hér nýverið. „Fólk mætti frekar fara að gefa heldur en að læka og læka.“

Þegar hefur safnast rösk milljón króna. Hermann segir þó meira þurfa til en enn er óvíst hvenær og með hvaða hætti fólkið kemur hingað til lands. „Þó þetta séu nú Íslendingar þá voru þetta hælisleitendur, fátækt verkafólk. Kópavogur tekur t.d. á móti fimmtán manns og eru með sveitarfélagið, ríkið, Rauða krossinn og fjölda sjálfboðaliða með sér til þess að taka á móti þeim. Svo er ég bara einn, með þrjár manneskjur að hjálpa mér, að reyna að græja íbúð og allt annað.“

Þar sem fjölskyldurnar eru Íslendingar njóta þær ekki þeirrar þjónustu opinberra aðila og félagasamtaka s.s. Rauða krossins sem flóttamenn og hælisleitendur gera. Eins og fram hefur komið falla fjölskyldurnar ekki undir sjúkratryggingar hér fyrr en að sex mánuðum liðnum og gengur söfnunin að hluta út á það að brúa bilið þangað til. Önnur almenn velferðarþjónusta mun þó standa þeim opin eftir því sem mbl.is kemst næst.

Hermann hefur þegar fundið annarri fjölskyldunni íbúð í Keflavík og leitar nú að annarri íbúð í Reykjavík. „Ég er á leið á fund með fasteignafélagi en það er ekkert einfalt að finna lausn á leigumarkaðnum. Ég hef samt fundið meðbyr og það hefur verið tekið vel á móti mér.“

Annar fjölskyldufaðirinn var sem kunnugt er í vinnu hjá Hermanni, sem er múrarameistari. Hann vonast til þess að koma honum á íslenskunámskeið sem fyrst eftir komuna hingað. „Hann ynni kannski hálfan daginn fyrstu mánuðina og lærði íslensku. Það þýðir ekkert að vinna fulla vinnu og reyna að læra íslensku með, þá kemst hann aldrei inn í þetta íslenska samfélag. Íslenskan er algjört lykilatriði.“

Frekari upplýsingar um söfnunina má nálgast á Facebook síðu hennar.

Reikningsupplýsingar eru eftirfarandi:

Reikningur: 301-13-112519
Kennitala: 220855-3689

Fjölskylda Kast­rijot og Xhul­ia Pepoj hlaut einnig ríkisborgararétt.
Fjölskylda Kast­rijot og Xhul­ia Pepoj hlaut einnig ríkisborgararétt. Ljósmynd/DV
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert