Bíða eftir hinum fullkomna leik

Mynd/Pílukastfélag Reykjavíkur

„Félagskapurinn okkar hefur farið vaxandi síðastliðin fimm ár. Við vorum nú að fjárfesta í eigin húsnæði eftir að hafa áður leigt,“ segir Björgvin Sigurðsson, formaður Pílukastfélags Reykjavíkur. Heimsmeistaramótið í Pílukasti stendur nú yfir í Alexandra Palace í Bretlandi og er íþróttin orðin afar vinsælt sjónvarpsefni víða um Evrópu. Björgvin segir áhugann hér á landi hafa fylgt þróuninni í Evrópu. 

„Í félaginu eru 110 skráðir félagar og svo eru mun fleiri sem heimsækja okkur reglulega,“ segir Björvin en bendir á að Pílukastsamband Íslands er ekki aðildarfélag að ÍSÍ. „Til þess að geta gengið inn í ÍSÍ þarf meðal annars að vera ungliðastarf og svo er bjórdrykkja ekki æskileg. Það er alveg hugmynd að skoða það í framtíðinni. Það verða örugglega næstu skref, þetta er orðið það vinsælt.“

Aldurinn skiptir engu máli

Margir tengja íþróttina við ölknæpur en hvers konar íþrótt er pílukast í raun og veru?

„Þetta er nákvæmnisíþrótt og mikil hugaríþrótt. Henni fylgir mikill reikningur. Það eru alls konar reglur sem þarf að kunna. Þetta er líka góður félagskapur og fylgir einhver bjórdrykkja en þú getur aldrei orðið góður spilari ef þú ert endalaust fullur. Frekar er fólk að fá sér bara einn, tvo bjóra, selskapsdrykkja. Þeir sem eru fullir kasta bara út um allt,“ segir Björgvin og bendir á að íþróttin henti fólki á öllum aldri. 

„Þeir sem eru bestir eru margir hverjir í eldri kantinum. Sá sem er bestur er Þorgeir Guðmundsson xog er 71 árs og fyrrverandi knattspyrnuhetja. Þeir sem standa sig best eru margir fyrrverandi íþróttamenn sem hafa staðið sig vel á öðrum sviðum. Það eru margir golfáhugamenn í félaginu auk gamalla handbolta- og körfuboltakempna.“

Auk Pílukastfélags Reykjavíkur eru félög bæði á Suðurnesjunum, í Grindavík og svo er Þór á Akureyri einnig með píludeild. 

Allir vonast eftir hinum fullkomna leik

Aðspurður hvað útskýrir hinar auknu vinsældir pílukastíþróttarinnar í sjónvarpi segir Björgvin það vera að áhorfandinn upplifir spennuna sem hann fær sjálfur þegar hann keppir. Til dæmis hefur enginn Íslendingur náð svokölluðum fullkomnum leik [klárað 501 stig í 9 köstum innsk.blm.} en það styttist í það. Íslendingar eru alveg að standa sig vel á móti þeim bestu í heiminum og það er ánægjulegt.“

Íslendingar senda landslið út til þess að taka þátt á heimsmeistara-, norðurlanda- og Evrópumótum. Að auki eru margir áhugasamir Íslendingar sem fara og horfa á stórmót erlendis. 

Í mars á næsta ári fer svo fram Winmau Iceland Open á Selfossi. Binda aðstandendur vonir til þess að erlendir keppendur komi og taki þátt, líkt og undanfarin ár.

Í meðfylgjandi mynbandi má sjá dæmi um hinn fullkomna leik. 501 stig í 9 pílum.  

Mynd/Pílukastfélag Reykjavíkur
Mynd/Pílukastfélag Reykjavíkur
Mynd/Pílukastfélag Reykjavíkur
Mynd/Pílukastfélag Reykjavíkur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert