Jóhann hættir sem forstjóri Hafró

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar.
Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Jóhann Sigurjónsson lætur af störfum sem forstjóri Hafrannsóknastofnunar 1. apríl og kemur til starfa í utanríkisráðuneytinu sem sérstakur erindreki íslenskra stjórnvalda varðandi málefni hafsins. Þetta kemur fram á vefsíðu ráðuneytisins í dag.

Jóhann Sigurjónsson er menntaður sjávarlíffræðingur og hefur starfað sem forstjóri Hafrannsóknastofnunar frá árinu 1998. Þar á undan starfaði hann sem sérfræðingur við stofnunina frá 1981 og fór með auðlindamál í utanríkisráðuneytinu 1996-1998. Þá var hann jafnframt aðalsamningamaður Íslands varðandi deilistofna í Norður-Atlantshafi.

Starf Jóhanns mun felast í að samræma verkefni varðandi málefni hafsins sem heyra undir fjögur ráðuneyti – atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, innanríkisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og utanríkisráðuneytið og leiða samráðsvettvang ráðuneytanna á þessu sviði, segir í tilkynningu ráðuneytisins. Jafnframt mun hann taka þátt í starfi á alþjóðavettvangi og sinna stefnumótun stjórnvalda í málefnum hafsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert