Heimilt að veiða 1300 hreindýr

Hreindýr við Teigaból í Fellum.
Hreindýr við Teigaból í Fellum. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Hreindýrakvóti þessa árs hefur verið ákveðinn að fengnum tillögum frá Umhverfisstofun samkvæmt tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Heimilt verður að veiða allt að 1300 dýr á árinu. Þar af 848 kýr og 452 tarfa.

„Veiðin skiptist milli níu veiðisvæða og eru mörk þeirra og fjöldi dýra á hverju svæði tilgreind nánar í auglýsingu sem birtist í Lögbirtingablaðinu. Heimildirnar eru veittar með fyrirvara um að ekki verði verulegar breytingar á stofnstærð fram að veiðum sem kalli á endurskoðun veiðiheimilda. Veiðitími tarfa er frá 1. ágúst til og með 15. september, en þó getur Umhverfisstofnun heimilað veiðar á törfum frá og með 15. júlí. Veiðitími kúa er frá 1. ágúst til 20. september,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Vakin er athygli á því að veturgamlir tarfar eru alfriðaðir og miðast tarfaveiði því við tveggja vetra og eldri tarfa. Óheimilt sé ennfremur að veiða kálfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert