Hringdi 50 sinnum í 112

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Um klukkan 23.30 í gærkvöldi var hringt í Neyðarlínuna en um var að ræða fyrstu hringinguna af liðlega 50 sem á eftir komu frá sama aðila. Lögreglumenn fóru að lokum að heimili viðkomandi og ræddu við hann en hann lét ekki af hegðun sinni.

Maðurinn var þá handtekinn og vistaður í fangageymslu. Hann var í annarlegu ástandi.

Um kl. 2 var ungur maður handtekinn grunaður um innbrot og þjófnað úr að minnsta kosti tveimur bifreiðum á svæði lögreglunnar í Austurbæ/Vesturbæ/Miðbæ/Seltjarnarnesi. Hann var í annarlegu ástandi og var vistaður í fangageymslu.

Þá var einn maður handtekinn eftir að hafa veist að dyraverði á skemmtistað í miðborginni. Hann var sömuleiðis vistaður í fangageymslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert