Kirkjan áfrýjar dúntekjumáli

Prestbústaðurinn að Staðastað.
Prestbústaðurinn að Staðastað. mbl.is/Sigurður Bogi

Kirkjuráð hefur ákveðið að áfrýja sýknudómi héraðsdóms Vesturlands vegna dúntekju til Hæstaréttar.

Landeigandi var sýknaður af kröfum Kirkjumálasjóðs í lok október á síðasta ári sem vildi að viðurkennt yrði með dómi að öll hlunnindi af æðarvarpi í Gamlahólma í Hagavatni í Snæfellsbæ tilheyrði kirkjujörðinni og prestsetrinu að Staðastað í Snæfellsbæ og að öðrum en þeim sem eigandi Staðastaðar heimilaði að nýta þessi hlunnindi væri óheimilt að nýta þau.

Héraðsdóm­ur dæmdi Kirkju­mála­sjóð til að greiða land­eig­and­an­um 1,2 millj­ón­ir króna í máls­kostnað.

Einn hólmi – tvö nöfn

Ágrein­ing­ur­inn snýst um það hvorri jörðinni til­heyri hlunn­indi af æðar­varpi í hólma í Haga­vatni sem Kirkju­mála­sjóðu sagði að heiti Gamli­hólmi. Land­eig­and­inn sagði hins veg­ar að hólm­inn heiti Haga­vatns­hólmi og að hann til­heyrði jörðinni Haga.

Eft­ir að land­eig­and­inn festi kaup á jörð sinni Haga árið 2007 kvaðst hann hafa orðið var við það að sókn­ar­prest­ur­inn á kirkjujörðinni Staðastað taldi sig eiga rétt til dún­tekju í Haga­vatns­hólma. 

Kirkju­mála­sjóður vísaði til þess að æðar­varps­hlunn­indi í Gamla­hólma í Haga­vatni hefði um ald­ir verið tal­in til­heyra prests­set­ur­sjörðinni Staðastað og nýtt af sitj­andi presti á hverj­um tíma. Þannig væri þess getið í Jarðabók Árna Magnús­son­ar að Gamli­hólmi væri meðal ítaka Staðastaðar. Hefðu hlunn­indi þessi verið tal­in meðal ítaka jarðar­inn­ar og verið lýst sem slík­um á sín­um tíma þótt óljóst væri hvernig end­an­lega hefði farið með skrán­ingu ítaks­ins. Það breytti því hins veg­ar ekki að ítakið hefði eft­ir sem áður verið talið til hlunn­inda Staðastaðar.

Land­eig­and­inn hélt því fram, að það væri ósannað að sá hólmi sem Kirkju­mála­stjóði kvaðst eiga hið meinta ítak í væri Haga­vatns­hólmi. Í öll­um þeim heim­ild­um sem Kirkju­mála­sjóður vísaði til máli sínu til stuðnings væri talað um Gamla­hólma en ekki Haga­vatns­hólma.

Héraðsdóm­ur seg­ir, að það verði að telja nægi­lega ráðið af gögn­um máls­ins að hólmi sá sem Kirkju­mála­sjóður kalli Gamla­hólma og land­eig­and­inn kalli Haga­vatns­hólma sé einn og sami hólm­inn.

Ítak féll úr gildi fyr­ir 60 árum

Fram kem­ur í dómn­um, að líta verði á að hið um­deilda ítak til dún­tekju hafi fallið úr gildi vegna van­lýs­ing­ar við lok frests til að lýsa því, það er 8. júlí 1954, hafi það á annað borð þá verið til staðar. 

Kirkju­mála­sjóður sagði hins veg­ar, að hann hefði eigi að síður unnið á því hefð, þar sem sitj­andi prest­ar á Staðarstað haldið áfram óslitið að nýta hlunn­indi af æðavarp í Gamla­hólma.  

Dóm­ar­inn seg­ir, að ekki séu til staðar gögn, eins og skatt­fram­töl eða önn­ur rekstr­ar­gögn, sem renni styrk­ari stoðum und­ir eða sýna fram á að dún­tekja í hólm­an­um hafi verið stunduð óslitið og sam­fleytt frá Staðarstað eft­ir 8. júlí 1954, þannig að til hefðar gæti hafa stofn­ast. Því var ekki fall­ist á að Kirkju­mála­sjóður hafi sýnt fram á að hann hafi öðlast öll hlunn­indi af æðar­varpi í um­rædd­um hólma sem ítak á grund­velli hefðar, og skipt­ir þá ekki máli hvort um sé að ræða sýni­legt eða ósýni­legt ítak.

Frétt mbl.is: Dúnmjúk lending landeiganda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert