Vildi ekki lenda á Íslandi

Eins og sjá má var vél­in ný­flog­in yfir Ísland þegar …
Eins og sjá má var vél­in ný­flog­in yfir Ísland þegar henni var snúið við. Photo: Twitter - @flig­htra­dar24

Flugstjóra American Airlines-vélarinnar sem snúið var við til London í nágrenni Keflavíkur vegna dularfullra veikinda farþega og áhafnar var boðið að lenda á Keflavíkurflugvelli en flugstjórinn afþakkaði það.

Frétt mbl.is: Snúið við vegna dularfullra veikinda

Breski miðillinn The Mirror greinir frá því að farþegar kvarti nú yfir því að hafa þurft að þola þriggja tíma flug aftur til Bretlands, umvafðir óvissu og ótta, í stað þess að lenda á Íslandi.

„Vélin var innan íslenska flugstjórnarsvæðisins þegar þetta kom upp,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia í skriflegu svari til mbl.is.

„Flugstjórinn hafði samband við flugstjórnarmiðstöðina í Reykjavík og tilkynnti að hann þyrfti að snúa við til London. Flugstjórnarmiðstöðin spurði hvort hann vildi lenda í Keflavík en hann sagðist frekar vilja fara til London. Það er auðvitað ávallt ákvörðun flugstjórans hvað hann vill gera.“

Ekki hefur enn verið greint frá því nákvæmlega hvers eðlis veikindin voru eða hvað orsakaði þau. Flugfreyja um borð í vélinni féll öngvit milli sætaraðanna og Daily Mail segir að talið sé að allt að því sex aðrir áhafn­ar­meðlim­ir hafi veikst auk í það minnsta tveggja farþega, karl­manna á sjö­tugs- og fimm­tugs­aldri. Við komuna til London voru loftgæði í vélinni rannsökuð áður en farþegum var hleypt út og bráðaliðum inn auk þess sem allur farangur var tekinn til rannsóknar.

The Mirror segir að meðal þess, sem hugsanlega hafi spilað inn í ákvörðun flugmannsins um að snúa aftur, gæti hafa verið eldsneytið, kostnaður og hentugleiki flugvallarins, auk þess sem heilbrigðisþjónusta á hverjum flugvelli fyrir sig geti spilað inn í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert